Innlent

Umferðarslys á bæði Þela­merkur­vegi og Hörg­ár­dals­vegi

Magnús Jochum Pálsson skrifar
Hringveginum við Þelamerkurveg var lokað tímabundið fyrr í kvöld vegna umferðaróhapps. Umferð var þá beint um Hörgárdalsveg en vegna óhapps á þeim vegi var honum einnig lokað. Mynd tengist frétt ekki beint.
Hringveginum við Þelamerkurveg var lokað tímabundið fyrr í kvöld vegna umferðaróhapps. Umferð var þá beint um Hörgárdalsveg en vegna óhapps á þeim vegi var honum einnig lokað. Mynd tengist frétt ekki beint. Vísir/Vilhelm

Hringveginum um Þelamerkurveg var lokað tímabundið vegna áreksturs um sexleytið í kvöld. Enginn slasaðist alvarlega að sögn ökumanns. Umferð var í kjölfarið beint um Hörgárdalsveg en þar varð einnig slys og var þeim vegi því einnig lokað. Þelamerkurvegur var opnaður á ný upp úr hálf átta.

Lögreglan á Norðurlandi eystra greindi frá því á Facebook um sex síðdegis að hringveginum við Þelamerkurverg hefði verið lokað og benti á hjáleið um Hörgárdalsveg. 

Klukkutíma síðar var færslan uppfærð og greint frá því að Hörgárdalsvegi hefði einnig verið lokað.

Sjö fluttir af vettvangi

Kolbrún Jónsdóttir, aðalvarðstjóri lögreglunnar á Norðurlandi eystra, sagði í samtali við fréttastofu að fjórir hefðu slasast í umferðarslysi á hringveginum við Þelamerkurveg. Þar af voru tveir fullorðnir og tvö börn. Alls voru sjö fluttir af vettvangi á Sjúkrahúsið á Akureyri.

Veginum var í kjölfarið lokað og umferð beint um Hörgárdalsveg.

„Þá verður umferðaróhapp, beint á móti slysavettvangi á Hörgárdalsvegi. Það slasaðist enginn þar. Annar bíllinn var ökufær og hinn óökufær þeim megin en báðir óökufærir hringvegsmegin,“ sagði Kolbrún.

Um hálf átta var opnað fyrir umferð um Þelamerkurveg en Hörgárdalsvegur verður áfram lokaður. 

Að sögn Kolbrúnar var ekki einungis árekstur á Hörgárdalsvegi heldur fór einnig rúta út af veginum.

Enginn alvarlega slasaður

Eftir að fréttin var skrifuð hafði Kolbrún Lind Malmquist, ökumaður sem keyrt var aftan á, samband við Vísi til að leiðrétta að börnin hennar tvö hefðu ekki slasast. 

Þá sagði hún að enginn af þeim sjö sem áttu hlut að slysinu hefðu slasast alvarlega. Fréttin hefur verið uppfærð með þessum upplýsingum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×