Þegar Heiðrún var langt gengin með miðjubarnið ákvað Ægir Þór að bera upp bónorðið. Hann bauð Heiðrúnu á jólatónleika Emmsjé Gauta og velti fyrir sér hvernig hann ætti að koma orðum að stóru spurningunni.
Mundi ekki hvort hún sagði já eða nei
Eftir að tónleikunum lauk sá hann að tíminn væri að renna úr greipum hans og örþrifaráðið var að kasta sér á hnén á blautu bílaplaninu fyrir utan heimili þeirra þar sem Heiðrún sat enn inn í bílnum.

Þau greina frá bónorðinu ásamt fleiri skemmtilegum sögum úr þeirra sambandstíð í hlaðvarpsþættinum Betri helmingurinn með Ása. Þar segir Ægir Þór:
„Ég opnaði fyrir henni hurðina leggst á skeljarnar á rennandiblautu bílaplaninu og bið hennar. Svo eiginlega hendi ég henni inn og skutla barnapíunni heim.
Þetta var einhvern veginn svona, jæja þá er þetta komið, áfram með smjörið. Ég var alveg búinn að gleyma hvort hún hefði sagt já eða nei.”
Varstu stressaður í momentinu?
„Já, ég var alveg stressaður en ég áttaði mig ekki á því af hverju ég væri svona stressaður. Sem er bara gott, því þetta hefur greinilega verið mjög mikilvægt fyrir mig. Að ná að landa þessu algjörlega.
Þetta var mjög skrítið, hjartað var alveg að pumpast út.”
Þáttinn í heild má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan.