Erlent

Trump aftur sektaður fyrir að brjóta gegn fyrir­mælum dómarans

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
„Ótrúlegt,“ muldraði forsetinn fyrrverandi eftir ákvörðun dómarans í gær.
„Ótrúlegt,“ muldraði forsetinn fyrrverandi eftir ákvörðun dómarans í gær. AP/Spencer Platt

Dómari í New York hefur sektað Donald Trump, fyrrverandi Bandaríkjaforseta, um 10.000 dollara fyrir að brjóta gegn fyrirmælum hans um að tjá sig ekki opinberlega um starfsmenn réttarins.

Arthur Engoron gerði hlé á réttarhöldunum sem nú standa yfir gegn Trump í New York til að kalla hann til vitnis vegna ummæla sinna.

Associated Press hafði eftir Trump að dómarinn væri hlutdrægur og að við hlið hans sæti önnur mjög hlutdræg manneskja, manneskja sem væri jafnvel hlutdrægari en dómarinn.

Spurður út í ummælin í dómsal sagðist Trump hafa verið að tala um Michael Cohen, fyrrum handbendi sitt, sem hefur verið að bera vitni gegn forsetanum fyrrverandi í vikunni. „Ertu viss?“ spurði dómarinn Trump um þessa staðhæfingu. „Já, ég er viss,“ svaraði Trump.

Engoron þótti þessi vitnisburður Trump hins vegar afar ótrúverðugur og benti á að það væri mjög auðvelt að átta sig á því að hann hefði í raun verið að vísa til aðstoðarmanns dómarans, Allison Greenfield. Sagði Engoron Trump ekki trúverðugt vitni og sektaði hann um ofangreinda upphæð.

Þetta er í annað sinn sem Trump er sektaður fyrir að brjóta gegn fyrirmælum dómarans en fyrri sektina, 5.000 dollara, fékk hann á sig fyrir að fjarlægja ekki ummæli sín um Greenfield af kosningasíðu sinni. 

Færsla þar sem Trump birti mynd af Greenfield með Chuck Schumer, forseta öldungadeildarinnar, var upphafleg ástæða þess að Engoron bannaði Trump að tjá sig opinberlega um starfsmenn dómstólsins en færlsan var aðeins fjarlægð af samfélagsmiðlinum Truth Social, ekki kosningasíðunni.

Lögmenn Trump sögðu um mistök að ræða en dómarinn sagði Trump vera kominn af „viðvörunarstiginu“ og ítrekaði í gær að ef hann bryti aftur gegn fyrirmælunum myndi það mögulega hafa mun alvarlegri afleiðingar í för með sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×