Sport

Stefán ætlar að verða betri en Gunnar Nelson: „Ég held með honum“

Aron Guðmundsson skrifar
Gunnar Nelson og Stefán Fannar í Mjölni
Gunnar Nelson og Stefán Fannar í Mjölni Vísir/Sigurjón Ólason

Stefán Fannar Hall­gríms­son er einn efni­legasti glímu­maður landsins um þessar mundir. Hann setur markið hátt, ætlar sér að verða betri glímu­maður en braut­ryðjandinn Gunnar Nel­son, ætlar sér að verða með þeim bestu í heimi.

Undan­farin þrjú ár hefur hinn 18 ára gamli Stefán Fannar æft brasilískt jiu-jitsu hjá Mjölni í Reykja­vík þar hefur hann stimplað sig ræki­lega inn í upp­gjafar­glímuna.

„Hér var tekið ó­trú­lega vel á móti mér í ung­linga­starfinu. Ég kom hingað í co­vid árið 2020 og hef síðan þá verið að æfa á fullu.“

Upp­gjafarf­glíman er langt í frá fyrsta í­þróttin sem reynir fyrir sér í en eftir að hann hóf að æfa hjá Mjölni hefur glíman átt hug hans allan.

„Ég prófaði MMA-ið hérna, elskaði glímuna sem boðið er upp á hér hjá Mjölni og fann strax að þetta var eitt­hvað sem ég vildi leggja fyrir mig. Maður er alltaf að læra fleiri hluti í tengslum við þetta. Maður getur aldrei full­komnað glímuna sína. Það er snilldin við þetta.“

Stefán Fannar stefnir háttVísir/Sigurjón Ólason

Og í Mjölni hefur hann verið mikið í kringum UFC bar­daga­kappann Gunnar Nel­son

„Hann er allt það sem maður vill sjá hjá bar­daga­manni. Ró­legur, flottur, yfir­vegaður og býr yfir geggjaðri tækni. Þá er hann líka frá­bær manneskja. Fyndinn og skemmti­legur ná­ungi sem tekur hlutunum ekki of al­var­lega. Það skín í gegn hjá honum hvað hann hefur gaman að þessari í­þrótt.“

Stefán Fannar hefur áður látið hafa það eftir sér að hann ætli að verða betri glímu­maður en Gunnar.

„Til lengri tíma litið langar mig að vera meðal bestu glímu­manna í heiminum. Verða einn af aðal mönnunum hér í Mjölni. Ég er ró­lega að vinna mig í áttina að því. Á næstunni held ég út og tek þátt í undan­keppni stærsta glímu­mót í heiminum, ADCC. Mig langar að fara þangað út, vinna þessa undan­keppni og komast á ADCC það er það sem er fyrir stafni hjá mér númer eitt, tvö og þrjú.“

Stefán Fannar ætlar ekki að halda í sömu átt og Gunnar Nel­son. Hann hefur ekki á­huga á því að berjast á vegum bar­daga­sam­taka eins og UFC og Bella­tor.

„Ég er nú bara voða sáttur með heilann minn. Ég nenni ekki að fara rugla í því og ber mikla virðingu fyrir því að halda mér góðum. Leyfi frekar mönnum eins og Gunnari, sem eru góðir í þessari deild, um það.“

„Ég held með honum“

Og Gunnar Nel­son sjálfur hefur mikla trú á þessum efni­lega glímu­manni.

„Ég trúi á hann alla leið,“ segir Gunnar um Stefán. „Ég vona inni­lega að hann verði miklu betri en ég og sagði ein­mitt við hann að hann ætti að miða miklu hærra en að verða bara betri en ég. Hann á bara að verða bestur í heimi. Verða eins góður og hann getur mögu­lega orðið. Ég held með honum.“

Ýmsir góðir kostir prýði Stefán sem séu þess valdandi að hann hefur mögu­leika á því að ná langt.

„Hann er í grunninn náttúru­lega bara hrika­lega dug­legur. Það er það sem skiptir mestu máli. Stefán er hérna alla daga, alltaf, og missir ekki af neinu tæki­færi til þess að bæta sig. Auð­vitað er hann mjög hæfi­leika­ríkur, líkt og margir ungir iðk­endur hjá okkur, en það skiptir svo miklu máli að eyða öllum sínum tíma sem maður mögu­lega hefur hérna. Stefán er alltaf að glíma, tuskast í öllum og er ekki hræddur við að mis­stíga sig. Þetta er rétta upp­skriftin.“

MMA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×