Erlent

Græn­lendingar skipta um tíma­belti

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Grænlenska þingið hefur ákveðið að breyta um tímabelti og færast þá nær Evrópu í tíma.
Grænlenska þingið hefur ákveðið að breyta um tímabelti og færast þá nær Evrópu í tíma. Getty

Ríkisstjórnin á Grænlandi tilkynnti fyrir helgi að frá og með laugardeginum síðastliðnum tilheyrir Grænland nýju tímabelti.

Áhugavert er þó að eitt byggðarlag á austurströnd Grænlands fylgir ekki restinni af Grænlandi í þessum breytingum, þó sé um tímabundið ástand að ræða.

Samkvæmt því sem kom fram í tilkynningu frá grænlenska forsætisráðuneytinu var ákvörðunin tekin til að minnka tímamismun Grænlands og Evrópu.

Byggðin Ittoqqortoormiit er ein einangraðasta byggð jarðar staðsett norðarlega á afar strjálbýlu austurströndinni og jafnframt sú grænlenska byggð sem er næst Íslandsströndum. Þar eru íbúar beðnir um að stilla klukkuna aftur um tíma en þá verður ekki nema klukkustundarmunur milli byggðarinnar og restarinnar af Grænlandi. 

Þessi breyting kemur í kjölfar lagabreytinga sem Evrópuþing samþykkti árið 2019 sem gerir hverju landi heimilt að ákveða hvort það vilji hafa sumar- og vetrartími eða ekki.

Íslendingar skiptu síðast á milli vetrar- og sumartíma árið 1968 en það ár tóku gildi lög um að sumartíminn, það er Greenwich-tíminn, skyldi vera staðaltími á Íslandi. Síðan þá hefur sami tími gilt allt árið um kring hér á landi.

Samkvæmt Kringvarpinu hafði Bárður á Steig Nielsen, fyrrverandi lögmaður Færeyja, í hyggju að gera sömu breytingu í Færeyjum og binda enda á sumar- og vetrartíma þar í landi í fyrra. Málið dagaði þó uppi á Lögþinginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×