Rodney Hodgins, 49 ára gamall maður frá bresku Kólumbíu, notar rafknúinn hjólastól vegna CP hreyfihömlunar. Þegar vélin lenti var honum tilkynnt að ekki tækist að útvega honum hjólastól áður en fljúga þyrfti vélinni á næsta áfangastað. Flugþjónn sagði Hodgins að hann þyrfti að koma sjálfum sér út.
„Ég sagði: Auðvitað get ég það ekki. Ég nota hjólastól og get ekki labbað,“ sagði Hodgins. Hann þurfti að lokum að nota efri búkinn í að labba áfram á höndunum á meðan konan hans, Deanna Hodgins, hélt í fæturnar á honum.
„Þetta var erfitt, fyrir framan fullt af fólki, margir litu undan og aðrir horfðu á. Hann meiddi sig og ég líka. Þetta var erfitt, sérstaklega tilfinningalega. Mannréttindin fóru út um gluggann og Air Canada svarar okkur ekki. Þau höfðu aldrei samband eins og þau höfðu lofað,“ segir Deanna.
Hún segir að tekið hafi um átta mánuði að skipuleggja ferðalagið, til að passa upp á að ekkert færi úrskeiðis.
Guardian greinir frá því að flugfélagið hafi beðist afsökunar. Air Canada noti þjónustu þriðja aðila sem eigi að sjá til þess að fólk komist örugglega út úr flugvélinni. Þetta eigi ekki að gerast. Hodgins voru boðnir tvö þúsund kanadískir dollarar í inneign í skaðabætur, sem eru um þrjú hundruð þúsund krónur, en hann segir það engu skipta. Eina sem hann vilji sé að enginn annar þurfi að upplifa það sama og hann.