Sandra er ein þeirra 18 leikmanna sem í dag var valin til að keppa fyrir hönd Íslands á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem hefst í nóvember.
Hún hafði þó ekki mikinn tíma til að fagna sætinu í HM-hópnum því lið hennar Metzingen mætti í kvöld Solingen-Grafrath í þýsku úrvalsdeildinni í dag. Leikurinn var hluti af 8-liða úrslitum þýska bikarsins en bæði liðin leika í úrvalsdeild þýska boltans.
Heimakonur í Solingen byrjuðu ágætlega og leiddu 7-6 þegar fyrri hálfleikur var hálfnaður en þá áttu gestirnir fínan kafla og komust í 13-9 forystu.
Staðan í hálfleik var 15-11 fyrir Metzingen. Í síðari hálfleik héldu hins vegar gestunum engin bönd. Forystan var orðin sjö mörk um miðjan hálfleikinn og Metzingen fagnaði að lokum tólf marka sigri. Lokatölur 35-23.
Sandra Erlingsdóttir átti góðan leik fyrir Metzingen í kvöld. Hún skoraði fimm mörk úr sex skotum og gaf fimm stoðsendingar þar að auki. Metzingen er því komið í undanúrslit þýska bikarsins.