Fótbolti

Sagði Albert upp­götvun tíma­bilsins og kallaði hann hinn ís­lenska Dybala

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ekki leiðum að líkjast fyrir Albert Guðmundsson.
Ekki leiðum að líkjast fyrir Albert Guðmundsson. vísir/getty

Albert Guðmundsson hefur farið á kostum með Genoa í ítölsku úrvalsdeildinni í vetur og fékk skemmtilegt hrós í vinsælu hlaðvarpi.

Albert skoraði sigurmark Genoa gegn Reggiana í ítölsku bikarkeppninni í gær. Þetta var annar leikurinn í röð sem hann skorar í en hann gerði eina mark leiksins þegar Genoa sigraði Salernitana í ítölsku úrvalsdeildinni á föstudaginn.

Fjallað var um leik Genoa og Salernitana í ítalskri yfirferð í hlaðvarpinu vinsæla The Totally Football Show.

James Horncastle, sérfræðingur þáttarins um ítalska boltans, sagði að Genoa hefði gengið betur en flesta hefði órað fyrir á tímabilinu og frammistaða Alberts ætti stóran þátt í því.

Horncastle sagði að Albert væri uppgötvun tímabilsins ásamt Leonardo Pavoletti, leikmanni Cagliari, og kallaði hann hinn íslenska Paulo Dybala.

Sá hefur verið í hópi bestu leikmanna ítölsku úrvalsdeildarinnar undanfarinn áratug eða svo, fyrst með Palermo, svo Juventus og loks Roma. Þá varð Dybala heimsmeistari með Argentínu í fyrra.

Albert hefur skorað sex mörk í tólf leikjum í deild og bikar á tímabilinu og leikið sérlega vel. Genoa er í 14. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar og komið í sextán liða úrslit bikarkeppninnar þar sem liðið mætir Lazio.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×