Fótbolti

Kristian Nökkvi form­lega orðinn leik­maður aðal­liðs Ajax

Aron Guðmundsson skrifar
Kristian Nökkvi í leik með Ajax á dögunum
Kristian Nökkvi í leik með Ajax á dögunum Vísir/Getty

Íslenski landsliðsmaðurinn í fótbolta, Kristian Nökkvi Hlynsson er formlega orðinn leikmaður aðalliðs hollenska stórliðsins Ajax.

Frá þessu greinir félagið í yfirlýsingu á heimasíðu þessu en með þessu er Kristian, sem hefur unnið sér inn sæti í byrjunarliði aðalliðsins ekki lengur titlaður sem leikmaður undir 23 ára liðs Ajax. 

Undanfarna fjóra leiki Ajax hefur Kristian verið í byrjunarliði aðalliðsins og skoraði hann meðal annars tvö mörk í útileik gegn FC Utrecht á dögunum. 

Íslendingurinn knái er 19 ára gamall og hefur verið í landsliðshópi íslenska landsliðsins í undanförnum landsliðsverkefnum. Hann er í miklum metum hjá landsliðsþjálfaranum Åge Hareide líkt og sá norski greindi frá á blaðamannafundi KSÍ í morgun.

„Ég er mikill aðdáandi Kristians. Hann var óheppinn fyrir leik okkar gegn Lúxemborg, hlaut smávægileg meiðsli en hefði komið við sögu hefði hann verið heill heilsu. Hann hefur verið að spila mjög vel fyrir Ajax sem er að ganga í gegnum krefjandi tíma þessa dagana.

Hann er klárlega öflugur leikmaður fyrir framtíðina hjá okkur. Ég er mjög ánægður með frammistöður hans. Ég hef haft hann með í landsliðnu því ég er mjög hrifinn af hans leik. Hæfileikum hans og hvernig hann spilar.“

Kristian er hluti af landsliðshópi Íslands sem mætir Slóvakíu og Portúgal á útivelli í undankeppni EM 2024 í næstu viku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×