Menning

„Ég er ekkert að slæpast“

Dóra Júlía Agnarsdóttir skrifar
Ragnheiður Jónsdóttir er viðmælandi í nýjasta þætti af Kúnst.
Ragnheiður Jónsdóttir er viðmælandi í nýjasta þætti af Kúnst. Vísir/Vilhelm

„Ég er algjör fréttafíkill, ég hlusta á hvern einasta fréttatíma,“ segir hin 90 ára Ragnheiður Jónsdóttir, grafíker og kolamálari, sem stendur fyrir sýningunni Kosmos/Kaos á Listasafni Árnesinga. Ragnheiður er viðmælandi í nýjasta þætti af Kúnst.

Hér má sjá viðtalið við Ragnheiði í heild sinni:

Ragnheiður hefur alla sína ævi verið fróðleiksfús og er óhrædd við að vera gagnrýnin í sinni listsköpun. Hún hefur sett upp fjöldann allan af sýningum og spannar sýningin Kosmos/Kaos verk frá hennar fyrstu einkasýningu árið 1976 til nýlegra verka.

Aldur heimilsfólksins spannaði öld

Ragnheiður bjó fyrstu æviárin sín í Reykjavík með móður sinni.

„Við mamma vorum bara tvær og ég segi alltaf að við höfum verið farandssaumakonur. Það var lítið um kjólaverslanir þá í Reykjavík, það eru auðvitað gjörbreyttir tímar núna.“

Mamma Ragnheiðar fór þá með hana litla með sér í hús víða um bæinn þar sem hún saumaði á alla fjölskylduna fyrir hin ýmsu tilefni.

„Svo flytjum við í sveitina þegar ég var fjögurra og hálfs árs. Við flytjum austur í Þykkvabæ og mamma giftist ungum bónda, Jóni Óskari Guðmundssyni, sem seinna varð kjörfaðir minn og var yndislegur.“

Ragnheiður Jónsdóttir segist alla tíð hafa verið þakklát fyrir það að hafa fengið alast upp hjá gömlu fólki. Vísir/Vilhelm

Á heimilinu voru þrjú gamalmenni, sem öll voru mótandi aðilar í lífi Ragnheiðar.

„Ég er svo þakklát fyrir það alla tíð að hafa alist upp með gömlu fólki. Það var enginn skyldur mér en ég fékk þarna heila fjölskyldu. Afi var 96 ára þegar hann dó og svo var yngsti fjölskyldumeðlimurinn, litli bróðir minn, á fyrsta ári.

Þannig að þetta spannaði heila öld, aldurinn á fólkinu á heimilinu. Þetta finnst mér svo dýrmætt, að hafa upplifað að alast upp með þessu gamla fólki. 

Ég var hrikalega forvitin, það var ekkert að gerast og ég hafði engan til þess að leika við. Þannig að ég sat á borði við hliðina á rúminu hans afa. Ég átti fastan punkt þar, lærði og las upphátt fyrir afa.“

Segir margt slæmt gerast í gegnum pólitíkina

Eitt af þekktustu verkum Ragnheiðar ber heitið Lýðforingjar og er frá árinu 1976. Uppeldi Ragnheiðar hafði mótandi áhrif á viðfangsefnið.

„Önnur gamla konan á heimilinu las öll blöð fyrir afa því hann vildi fylgjast með. Hann var alltaf að hlusta á fréttir og ég var því alltaf að hlusta á fréttir, frá því ég var smákrakki. 

Það gerist svo fátt í sveitinni og maður notar hvert einasta tækifæri til þess að fá tilbreytingu. Þannig byrjar þetta og svo heldur þetta áfram, ég er algjör fréttafíkill. 

Ég hlusta á hvern einasta fréttatíma. Og þá fór ég náttúrulega að hugsa um þjóðmálin og svona leit þetta út 1976,“ segir Ragnheiður og bendir á verkið sitt Lýðforingjar.

„Mér finnst svo margt slæmt gerast í gegnum pólitíkina. Svona baktjaldamakk og hrossakaup, mér finnst að fólk sem leggur pólitíkina fyrir sig megi gæta sín. Þetta skiptir náttúrulega öllu máli, að fólk sé mjög heiðarlegt og skyldurækið, þannig að það sé til góðs en ekki til ills. Að það sé ekki með bundið fyrir augun og brosi bara út í loftið.“

Áhyggjurnar týnist í streðinu

Ragnheiður hefur sem áður segir verið öflug í listasenunni síðustu hálfa öld.

„Ég vona að ég geti haldið áfram og ég er ekkert að slæpast. Því þetta er svo gefandi, þetta er svo skemmtilegt og gleðjandi. Það er líka svo krefjandi að vera að einbeita sér svo við það sem maður er að gera. 

Ef maður er að hafa áhyggjur af einhverju en er að vinna þá bara gleymir maður áhyggjunum. Þær týnast í þessu streði öllu.“





Fleiri fréttir

Sjá meira


×