Ólafur er sagður koma sterklega til greina sem næsti þjálfari þýska b-deildarliðsins EHV Aue en handbolti.is hefur heimildir fyrir þessu.
EHV Aue er að leita að nýjum þjálfara eftir að Stephen Just var rekinn í síðustu viku eftir mjög slaka byrjun liðsins á tímabilinu.
Búist er við því að nýr þjálfari verði tilkynntur í dag eða á morgun. Það verður spennandi að sjá hvort það verði Ólafur. Fái hann starfið bíður hans mjög krefjandi verkefni að halda liðinu í deildinni.
Ólafur var síðast aðstoðarþjálfari hjá HC Erlangen en hætti störfum stuttu fyrir tímabilið.
Íslendingar hafa spilað með EHV Aue í gegnum tíðina en Sveinbjörn Pétursson hefur verið markvörður liðsins frá árinu 2020. Rúnar Sigtryggsson þjálfaði liðið líka í fjögur ár frá 2012 til 2016.
EHV Aue vann sigur á TuS N-Lübbecke um helgina og kom sér þar með af botni b-deildarinnar en þetta var aðeins annar sigur liðsins á tímabilinu. EHV kom upp úr C-deildinni í vor eftir eins árs veru.