Margrét Erla starfaði sem sjónvarpskona á Hringbraut og var þar í því sem kallast gerviverktaka. Hún greinir frá því að í lok mars hafi Torg lýst yfir gjaldþroti.
„Í kjölfarið var ljóst að ég fengi ekki greidda vinnu mína í mars - enda var ég svokallaður „gerviverktaki.“ Þessi póstur er hvatning til fólks að reyna eftir fremsta megni að forðast slíkar ráðningar og viðskiptasambönd. Engin réttindi, ekki tilkall í ábyrgðarsjóð launa þar sem ég er bara þannig gerð að ef eitthvað dettur niður bý ég til fleiri gigg,“ segir í færslu Margrétar Erlu sem nú fer sem eldur í sinu um netið.
Fólk á vart orð í eigu sinni til að lýsa yfir vandlætingu sinni, athugasemdir hrannast inn en reiðin beinist einkum að Helga Magnússyni fyrrverandi eiganda Torgs og svo DV, sem Helgi keypti úr eigin þrotabúi.
Rukkuð afturvirkt um launagreiðslur
Lögmaður hefur nú sent Margréti Erlu bréf þar sem hann krefur hana um endurgreiðslu þeirra launa sem hún hafði þegið, þá umfram aðra verktaka.
„Ég var farin að sjá til sólar þegar ég fékk ábyrgðarbréf þess efnis að mér bæri að borga til baka síðasta reikning sem ég hafði fengið greiddan frá Torgi fyrir vinnu í febrúar - upp á 703.800 krónur,“ segir í færslu Margrétar Erlu. En hún birtir bréfið með færslu sinni.
Í bréfinu segir að henni hefði mátt vera ljóst að Torg hefði ekki verið borgunaraðili fyrir reikningnum í ljósi fréttaflutnings af gjaldþrotinu, hún hafi verið innt á ótilhlýðilegan hátt „til hagsbóta á kostnað annarra kröfuhafa og hún leitt til þess að eignir félagsins voru ekki til reiðu til fullnustu öðrum kröfuhöfum.“ Það er Óskar Sigurðsson skiptastjóri sem ritar undir bréfið.
Hættið að opna DV!
Í bréfinu kemur einnig fram að almennar kröfur í þrotabúið nemi samtals Kr. 1.169.801.384 en þar af nemi kröfur ótengdra aðila 181.812.712 krónum. Margrét Erla er því rukkuð um það sem henni var greitt, samtals 703.800 krónum sem er greiðsla fyrir mánaðarlaun.

Færsla Margrétar Erlu er löng og hún óskar eftir stuðningi, hún geti komið með pubquiz eða „danstíma í vinnuna ykkar í desember og janúar, þið getið keypt miða á sýningarnar mínar - sjá www.margretmaack.com - og svo getið þið líka hætt að opna DV.is eða auglýsa þar. Einnig má kommenta hér fyrirtæki sem Helgi Magnússon á hlut í svo að minnsta kosti ég geti beint viðskiptum mínum annað.“