David De Gea var á mála hjá Manchester United frá árinu 2011 og allt þar til í sumar þegar samningur hans rann út. Hann lék rúmlega 400 leiki fyrir United og á þar að auki að baki 45 A-landsleiki fyrir Spánverja.
Engu að síður hefur De Gea ekki tekist að finna sér nýtt félag. Mikill áhugi var á De Gea hjá sádiarabíska félaginu Al Nassr þar sem Cristiano Ronaldo er stærsta stjarnan.
Samkvæmt breskum miðlum bauð Al Nassr De Gea 500.000 pund í vikulaun en það dugði þó ekki til því Spánverjinn hafnaði tilboðinu. Samkvæmt miðlunum er eiginkona De Gea lítið spennt fyrir því að flytja til Sádi Arabíu.
De Gea hefur verið orðaður við Valencia á Spáni að undanförnu og þá hafa sögusagnir einnig verið á kreiki um að hann muni mögulega skrifa undir skammtímasamning við sitt gamla félag á Englandi. Þá eru forráðamenn Inter Miami sömuleiðis áhugasamir um að tryggja sér þjónustu De Gea. Það er möguleiki sem De Gea ku vera spenntur fyrir en þá yrði hann liðsfélagi Lionel Messi.