Höfnunin mars byggði á því að hann hafði ekki afplánað nóg af dómi sínum til að eiga rétt á reynslulausn. Var honum tjáð að hann gæti fyrst sótt um í ágúst 2024.
Meira en tíu ár eru liðin frá því Pistoius skaut Reevu Steenkamp, kærustu sína, til bana í febrúar 2013. Hann skaut hana í gegnum hurð að baðherbergi þeirra og hefur haldið því fram að hann hafi talið að innbrotsþjófur hefði verið þar inni um miðja nótt. Hann og Steenkamp höfðu verið að rífast.
Pistorius hefur setið í fangelsi frá árinu 2014, þegar hann var fyrst dæmdur og það fyrir manndráp.
Dómurinn var þó síðar þyngdur og Pistorius dæmdur til þrettán ára og fimm mánaða fangelsis fyrir morð. Það var árið 2017, eftir nokkrar áfrýjanir saksóknara, að Hæstiréttur Suður-Afríku komst að þeirri niðurstöðu að Pistorius ætti að sitja inni í fimmtán ár, sem er lágmarksrefsing fyrir morð í Suður-Afríku.
Sá dómur var styttur vegna þess að hann hafði þegar setið inni um tíma.
Hæstiréttur gerði mistök
Í Suður-Afríku geta fangar, sem dæmdir eru fyrir alvarleg brot eins og morð, sótt um reynslulausn eftir að hafa afplánað minnst helming af dómi þeirra.
Samkvæmt frétt AP fréttaveitunnar gerði Hæstiréttur mistök þegar refsing Pistorius var þyngd og taldi ekki stóran hluta af afplánun hans. Hann átti því rétt á því að sækja um reynslulausn í mars og var honum því leyft að leggja fram aðra umsókn, sem er til skoðunar núna.
Ákvörðun fangelsisyfirvalda á að opinbera á föstudaginn.
Móðir Steenkamp lagði gegn því að Pistoriusi yrði veitt reynslulausn í mars og sagðist hún ekki telja að Pistorius hefði sýnt iðrun eða að hann væri endurhæfður.
Við ákvörðun fangelsisyfirvalda er hegðun Pistorius í fangelsi tekin til skoðunar, auk þess sem mat er lagt á geðheilsu hans og líkur á því að hann brjóti af sér aftur.
Fái hann reynslulausn gæti hann fengið fulla lausn eða reynslulausnin gæti falið í sér að hann fái að fara út á daginn en þurfi að snúa aftur í fangelsi á kvöldin.
Pistorius verður 37 ára á morgun (miðvikudag). Á árum áður var hann frægur íþróttamaður þrátt fyrir að hafa verið með fæðingargalla sem leiddi til þess að taka þurfti fæturna fyrir neðan hné af honum í æsku. Hann lagði þó stund á frjálsar íþróttir og náði miklum árangri á hlaupabrautinni, með stoðtækjum frá Össuri.
Hann hefur ekki sést opinberlega frá því hann hóf afplánun sína.