Fótbolti

Mikill ruglingur í kringum „síðasta dansinn“ hjá Messi og Ronaldo

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi sitja hér hlið við hlið á verðlaunahátíð UEFA.
Cristiano Ronaldo og Lionel Messi sitja hér hlið við hlið á verðlaunahátíð UEFA. Getty/Harold Cunningham

Fyrr í vikunni tilkynntu Sádi-Arabar að knattspyrnugoðin Lionel Messi og Cristiano Ronaldo myndu mætast í síðasta sinn á fótboltavellinum í febrúar næstkomandi en nú er komið upp babb í bátinn.

Bandaríska félagið Inter Miami segir að ekkert samkomulag sér í höfn milli sín og félaganna i Sádi Arabíu og að þessi yfirlýsing Sádana sé því hreinlega röng.

Inter Miami átti að taka átt í Riyadh Season Cup ásamt sádi-arabísku félögunum Al-Nassr og Al Hilal.

Cristinao Ronaldo spilar með Al-Nassr en Neymar er leikmaður Al Hilal. Neymar tekur ekki þátt í mótinu þar sem hann er nýbúinn að slíta krossband.

„Síðasti dansinn hjá tveimur fótboltagoðsögnum. Ronaldo á móti Messi,“ skrifaði Turki Al-Sheikh, forseti ráðsins sem sér um skemmtanamál í Sádi-Arabíu.

Skipuleggjendur leiksins auglýstu hann undir slagorðinu fræga „The Last Dance“ eða „Síðasti dansinn“ eins og Michael Jordan gerði frægt í heimildarmyndinni sinni.

Messi tók þátt í þessu saman móti í fyrra en hann var þá leikmaður franska liðsins Paris Saint Germain. Þar mætti hann líka Ronaldo en PSG vann leikinn 5-4.

Þar var einnig haft eftir Jorge Mas, forseta Inter Miami, þar sem hann hrósaði meðal annars þróun fótboltans í Sádí Arabíu.

Fréttirnar af leik milli Lionel Messi og Cristinao Ronaldo fór eins og eldur í sinu út um allan heiminn en nú verður líklegast ekkert að þessum leik. Bandaríska félagið kom af fjöllum um að eitthvað samkomulag væri í höfn.

„Fyrr í dag var tilkynnt að Inter Miami muni taka þátt í Riyadh Season Cup. Það er rangt. Í yfirlýsingunni var einnig haft eftir Jorge Mas, forseta okkar félags. Mas hefur aldrei sagt þetta um undirbúningsmótið, hvort sem það er opinberlega eða í trúnaði,“ sagði í yfirlýsingu bandaríska félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×