Körfubolti

Leik­maður Hauka hneig niður í miðjum leik

Jón Þór Stefánsson skrifar
David Okeke í báráttu í leik Hauka gegn Val.
David Okeke í báráttu í leik Hauka gegn Val. Vísir/Anton Brink

Leikmaður Hauka í körfuknattleik hneig niður í leik liðsins gegn Tindastól í Subway deild karla í gærkvöldi en leikurinn fór fram á Sauðárkróki.

David Okeke fór í hjartastopp í öðrum leikhluta leiksins. Hann féll til jarðar og mátti sjá að gangráður hans gaf honum stuð. Hann komst til meðvitundar stuttu seinna og reisti sig við.

Þá fékk David aftur stuð frá gangráðnum og mátti sjá á svip hans að hann fann vel fyrir því.

David settist aftur á varamannabekk liðs síns. Lítið var eftir að fjórðungnum og eftir leikhlé var hann ekki sjáanlegur á bekknum. Okeke hafði verið fluttur á sjúkrahús.

„Það var læknir hérna sem sagði mér að hann hafi fengið tvö væg hjartastopp. Það var farið með hann beint upp á spítala og það hljómar alls ekki vel, þannig ég bara hef ekki hugmynd,“ sagði Maté Dalmay, þjálfari Hauka, þegar hann var spurður um atvikið eftir leikinn í gær.

Tindastóll vann leikinn með 78 stig gegn 68 hjá Haukum. Okeke var kominn með fjórtán stig á sautján mínútum þegar atvikið gerðist.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×