Fótbolti

Hildur og María komu að fjórum mörkum í risasigri

Hjörtur Leó Guðjónsson skrifar
María Catharina Ólafsdóttir Gros skoraði tvö fyrir Fortuna Sittard í kvöld.
María Catharina Ólafsdóttir Gros skoraði tvö fyrir Fortuna Sittard í kvöld. Jeroen van den Berg/Soccrates/Getty Images

Íslensku knattspyrnukonurnar Hildur Antonsdóttir og María Catharina Ólafsdóttir Gros léku stórt hlutverk fyrir Fortuna Sittard er liðið vann sannkallaðan risasigur gegn Telstar í hollensku úrvalsdeildinni í kvöld, 7-1.

Hildur lagði upp fyrsta mark leiksins strax á fyrstu mínútu áður en María skoraði annað markið aðeins þremur mínútum síðar.

Strax á sjöundu mínútu var staðan svo orðin 3-0 áður en Hildur lagði upp fjórða mark liðsins á 28. mínútu og í þetta sinn var það María sem kláraði færið. 

Heimakonur bættu fimmta markinu við fimm mínútum síðar og staðan því 5-0 í hálfleik. Fortuna Sittard bætti svo tveimur mörkum við snemma í síðari hálfleik áður en gestirnir klóruðu í bakkann með marki á 72. mínútu og þar við sat.

Niðurstaðan því afar sannfærandi 7-1 sigur Fortuna Sittard sem nú situr í öðru sæti hollensku deildarinnar með 19 stig eftir níu leiki, fimm stigum á eftir toppliði Twente. Telstar situr hins vegar í áttunda sæti með átta stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×