Sport

Cech spilaði sinn fyrsta leik í úr­vals­deildinni í ís­hokkí

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Petr Cech byrjaði að spila íshokkí eftir að fótboltaferlinum lauk.
Petr Cech byrjaði að spila íshokkí eftir að fótboltaferlinum lauk. getty/Action Foto Sport

Petr Cech, fyrrverandi markvörður Chelsea og Arsenal í fótbolta, þreytti frumraun sína í bresku úrvalsdeildinni í íshokkí um helgina.

Cech kom við sögu í leik Belfast Giants og Glasgow Clan á laugardaginn. Risarnir frá Belfast unnu leikinn, 5-1, og Cech stóð fyrir sínu í marki þeirra og varði nokkur skot á þeim fimm mínútum sem hann spilaði. Markvarðahæfileikarnir einskorðast því ekki bara við fótboltann.

Hinn 41 árs Cech leikur með neðri deildarliði Oxford City Stars en fór á sérstöku neyðarleyfi til Belfast Gaints sem unnu bresku úrvalsdeildina í fyrra.

Cech spilaði svo sinn fyrsta leik fyrir Belfast Giants um helgina. Tékkinn var nokkuð sáttur eftir frumraunina.

„Þetta er augljóslega sérstakt augnablik. Þú vilt ekki fara inn á við aðstæður þar sem þér er sagt að fara inn. Ég var búinn að standa nokkuð lengi á bekknum. Það eru ekki kjöraðstæður að stökkva svona inn en ég var til staðar fyrir svona lagað, að koma inn á,“ sagði Cech.

„Ég kom inn á síðustu fimm mínúturnar og nýtti reynslu mína af stórum leikjum sem ég spilaði lengi. Það hjálpaði því ég var ekki stressaður. Ég æfði með liðinu í tvær vikur og fannst ég geta komið inn og lagt mitt að mörkum.“

Cech varð fjórum sinnum enskur meistari, vann enska bikarinn fimm sinnum og Meistaradeild Evrópu einu sinni á glæstum fótboltaferli. Hann lék 124 leiki fyrir tékkneska landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×