New­cast­le upp fyrir and­laust lið Man United

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Anthony Gordon skoraði sigurmarkið.
Anthony Gordon skoraði sigurmarkið. Robbie Jay Barratt/Getty Images

Newcastle United vann Manchester United 1-0 í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Sigurinn var síst of stór.

Fyrir leikinn voru liðin hlið við hlið í töflunni en gestirnir frá Manchester sæti ofar með stigi meira. Það var ekki að sjá á leik dagsins en heimamenn óðu hreinlega í færum og tættu andlaust lið gestanna í sig.

Þrátt fyrir að skapa urmul færa þá vildi boltinn ekki inn í fyrri hálfleik. Sönnun þess var þegar aukaspyrna Kieran Trippier small í slánni, niður á marklínu og út.

Stuðningsfólk Man United vonaðist til að Erik ten Hag myndi messa yfir sínum mönnum í hálfleik og mögulega hrista upp í hlutunum. Það var hins vegar engin skipting gerð og áfram hélt stórsókn Newcastle í síðari hálfleik.

Á endanum skoraði Anthony Gordon þegar hann mætti á fjær og lagði boltann snyrtilega í netið eftir þversendingu Trippier. Mark sem Man United virðist fá á sig aftur og aftur.

Staðan orðin 1-0 og þó heimamenn hafi skapað sér færi til að skora tvö eða þrjú mörk til viðbóar þá kom allt fyrir ekki og leiknum lauk með 1-0 sigri heimaliðsins. Reyndar komu gestirnir boltanum í netið rétt fyrir lok venjulegs leiktíma en skot Antony fór af Harry Maguire sem var rangstæður og þaðan í netið.

Eftir leik dagsins er Newcastle í 5. sæti með 26 stig að loknum 14 leikjum á meðan Man United er í 7. sæti með 24 stig.

Nottingham Forest 0-1 Everton

Gestirnir voru á botni deildarinnar eftir að 10 stig voru dregin af þeim á dögunum fyrir brot á fjármálareglum ensku úrvalsdeildarinnar. Lærisveinar Sean Dyche hafa þó ekki lagt árar í bát og þó jafntefli hefði verið sanngjörn niðurstaða í dag þá tryggði mark Dwight McNeil um miðbik síðari hálfleiks gestunum sigurinn.

Brentford 3-1 Luton Town

Nýliðar Luton sóttu ekki gull í greipar Brentford í dag. Staðan var markalaus í hálfleik en Neal Maupay kom heimamönnum yfir í upphafi þess síðari og Ben Mee tvöfaldaði forystuna stuttu síðar. Jacob Brown minnkaði muninn en Shandon Baptiste gulltryggði 3-1 sigur heimaliðsins.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira