Enski boltinn

Jón Daði gerði þrennu í fyrri hálf­leik

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jón Daði í leik dagsins.
Jón Daði í leik dagsins. @OfficialBWFC

Jón Daði Böðvarsson fékk tækifæri í byrjunarliði Bolton Wanderers þegar liðið fékk Harrogate Town í heimsókn í ensku bikarkeppninni í knattspyrnu. Jón Daði gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu í fyrri hálfleik en leiknum lauk með 5-1 sigri Bolton.

Boldon leikur í ensku C-deildinni á meðan Harrogate er deild neðar og heimamenn í Bolton því sigurstranglegri fyrir leik. Jón Daði var eins og áður sagði í byrjunarliðinu og miðað við frammistöðu hans verður erfitt fyrir Ian Evatt, þjálfara, að taka hann úr liðinu.

Jón Daði braut ísinn á 9. mínútu, bætti við öðru marki sínu og öðru marki Bolton á 33. mínútu. Framherjinn fullkomnaði svo þrennu sína tíu mínútum síðar og staðan orðin 3-0.

Gestirnir minnkuðu muninn fyrir hálfleik en Bolton skoraði tvívegis í upphafi síðari hálfleiks og gekk endanlega frá leiknum. Jón Daði var tekinn af velli á 65. mínútu.

Þá stóð Rúnar Alex Rúnarsson vaktina í marki Cardiff City þegar liðið tapaði 2-0 á útivelli gegn Southampton. Rúnar Alex og félagar eru í 11. sæti með 27 stig að loknum 19 umferðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×