Enski boltinn

Vitum hversu mikið við leggjum á okkur fyrir hvorn annan

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Gordon var sáttur að leik loknum.
Gordon var sáttur að leik loknum. MB Media/Getty Images

„Frábær sigur í dag. Hefur verið risastór vika fyrir okkur, góð augnablik og sum erfið sem við fórum í gegnum sem lið,“ sagði Anthony Gordon eftir 1-0 sigur Newcastle United á Manchester United í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Gordon skoraði sigurmark leiksins.

Newcastle byrjaði daginn fyrir neðan Man United í töflunni en það var aldrei að sjá á leik liðanna. Sigurinn var síst of stór og hefðu heimamenn auðveldlega getað skorað eitt eða tvö til viðbótar.

„Sömu ellefu spiluðu þrjá leiki í röð og komust í gegnum það,“ sagði Gordon einnig en Newcastle er að glíma við mikil meiðsli líkt og gestirnir frá Manchester.

„Gerir sigurinn sætari að hafa spilað leikinn á sömu leikmönnum og síðustu leiki. Ekki bara þeir sem eru meiddir heldur líka þeir sem eru að spila í gegnum meiðsli. Það er mjög ánægjulegt því við vitum hversu mikið við leggjum á okkur fyrir hvorn annan. Að ná í sigur í dag er risastórt.“

Um mark dagsins sagði Gordon: „Þeir vörðust vel sem lið í fyrri hálfleik svo við þurftum að finna leið í gegnum þá. Þetta var frábært mark, góður spilkafli, góðar sendingar og þægileg afgreiðsla.“

„Þetta er bestu stuðningsmannakjarni i landinu. Munurinn á því hvernig við spilum á heima- og útivelli er alfarið þeim að þakka,“ sagði Gordon að endingu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×