Maðurinn krafðist aðallega viðurkenningar á því að tryggingafélagið Vörður, sem tryggði lögreglubílinn, bæri ábyrgð á líkamstjóninu sem hann varð fyrir. Landsréttur féllst ekki á það.
Lögreglan ók meðvitað á bíl mannsins, en það var til að stöðva ofsaakstur hans um Skálholtsveg, Skeiða- og Hrunamannveg og Þjórsárdalsveg á Suðurlandi.
Réðst á heimili sitt
Í dómi málsins kemur fram að lögregla hafi verið kölluð til vegna tilkynningar um árás mannsins gegn heimili hans, þar sem inni voru kona og börn, og í framhaldinu hafi hann flúið af vettvangi ölvaður.
Maðurinn hafði farið fyrir dóm vegna aksturs síns þetta skipti. Héraðsdómur Suðurlands komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn hefði ekið bíl sínum á 110 kílómetra hraða og ekki fylgt stöðvunarmerkjum lögreglu, og viðurkenndi hann að hafa orðið var við stöðvunarmerkin.

Þeim dómi var ekki áfrýjað og því notaðist Landsréttur við hann við úrlausn málsins, en í honum kom fram að maðurinn hefði sveigt vísvitandi og af ásetningi yfir á rangan vegarhelming á meðan lögreglubíll veitti honum eftirför.
Stefndi lífi lögreglumanna í hættu
Þar að auki hafi hann, með lögreglubílinn fast á eftir sér, ítrekað nauðhemlað á yfir níutíu kílómetra hraða. Með því hafi hann hótað lögreglumönnum við skyldustörf ofbeldi og stofnað lífi og heilsu þeirra í hættu.
Héraðsdómur Suðurlands komst að þeirri niðurstöðu að maðurinn hafði með framferði sínu skapað ótvíræða hættu fyrir aðra vegfarendur. Hann hefði raskað umferðaröryggi á alfaraleið.
Í niðurstöðu sinni segir í dómi Landsréttar að hafa verði í huga hlutverk lögreglu til að gæta almannaöryggis og koma í veg fyrir athafnir sem raska öryggi borgara.
Dómurinn komst að þeirri niðurstöðu að ekki hefðu verið tæk viðurhlutaminni úrræði við að stöðva akstur mannsins. Lögreglumaðurinn hafi því átt rétt á að aka aftur á manninn. Maðurinn beri því sjálfur ábyrgð á líkamstjóni sínu.