Lífið

Taylor Swift manneskja ársins hjá TIME

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Taylor Swift hefur farið mikinn í ár.
Taylor Swift hefur farið mikinn í ár. Buda Mendes/TAS23/Getty Images

Bandaríska söngkonan Taylor Swift er manneskja ársins 2023 hjá bandaríska tímaritinu TIME.

Tímaritið greinir frá þessu í dag. Þar á bæ hefur manneskja ársins verið valin frá árinu 1927. Sá sem verður fyrir valinu er talinn hafa haft mestu áhrif á fréttir ársins, hvort sem það er til góðs eða ills.

Söngkonan skýtur því manneskjum líkt og Karli Bretlandskonungi og Barbie dúkkunni ref fyrir rass. Þau voru meðal átta sem tímaritið hafði áður tilkynnt að kæmu til greina í valinu.

Sam Jacobs, ritstjóri TIME segir það ekki auðvelt verk að velja manneskju ársins. Í ár endurspegli valið gleði, tímaritið hafi valið manneskju sem bæti veröld margra.

„Hún var eins og veðrið, hún var alls staðar,“ segir Jacobs sem ræddi valið á sjónvarpsstöðinni NBC. Í umsögn tímaritsins kemur fram að afrek söngkonunnar séu margvísleg og listinn yfir þau langur.

Volodomír Selenskí, forseti Úkraínu og „andi Úkraínu“ var valinn manneskja ársins í fyrra. Árið 2021 var Elon Musk, stofnandi Tesla og SpaceX manneskja ársins hjá TIME en Joe Biden og Kamala Harris, þá verðandi forseti og varaforseti, árið 2020.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×