Fótbolti

Hákon Rafn orðaður við annað lið í Belgíu

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Hákon Rafn og Cristiano Ronaldo í leik Portúgal og Íslands.
Hákon Rafn og Cristiano Ronaldo í leik Portúgal og Íslands. David S. Bustamante/Getty Images

Það stefnir allt í að landsliðsmarkvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson yfirgefi herbúðir sænska knattspyrnufélagsins Elfsborg á næstunni en hann er ítrekað orðaður við félög í Belgíu sem og víðar.

Það stefnir allt í að landsliðsmarkvörðurinn Hákon Rafn Valdimarsson yfirgefi herbúðir sænska knattspyrnufélagsins Elfsborg á næstunni en hann er ítrekað orðaður við félög í Belgíu sem og víðar.

Á dögunum var greint frá því að stórveldið Anderlecht hefði áhuga á að fá Hákon Rafn í sínar raðir. Danski landsliðsmarkvörðurinn Kasper Schmeichel stendur um þessar mundir í marki liðsins en hann verður samningslaus næsta sumar. Nú er hins vegar nýtt félag frá Belgíu komið inn í myndina samkvæmt frétt sænska miðilsins Aftonbladet.

Um er að ræða Gent en liðið er með Breiðabliki í riðli í Sambandsdeild Evrópu. Gent vann leik liðanna í Belgíu 5-0 en síðari leik liðanna hér á landi aðeins 3-2. Það virðist sem liðið sé að íhuga að breyta til í markmannsmálum sínum og er hinn 22 ára gamli Hákon Rafn meðal þeirra markvarða sem félagið horfir til.

Ekki er langt síðan Hákon Rafn var á blaði hjá Bröndby í Danmörku en á endanum ákvað danska félagið að fara í aðra átt.

Hákon Rafn átti frábært tímabil með Elfsborg á nýafstaðinni leiktíð en liðið endaði í 2. sæti deildarinnar eftir tap í lokaumferðinni. Hákon Rafn var valinn besti markvörður deildarinnar og var meðal þriggja bestu leikmanna hennar.

Þá lék hann sinn fyrsta mótsleik fyrir A-landslið Íslands þegar liðið tapaði 2-0 fyrir Portúgal ytra í lokaleik undankeppni EM 2024.

Formaður Elfsborg, Stefan Andreasson, staðfestir að það sé mikill áhugi á markverðinum unga en enn hafi ekkert lið þó boðið formlega í hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×