Dregið var í dag í umspil um sæti í A- og B-deildum Þjóðadeildarinnar, sem og í fjögurra liða úrslit keppninnar.
Það fyrsta sem kom í ljós var að Ísland mætir Serbíu. Serbar eru í 23. sæti Evrópuþjóða á styrkleikalista FIFA en Ísland er í 9. sætinu. Ísland hefur mætt Serbíu sex sinnum og alltaf fagnað sigri. Liðin hafa hins vegar ekki mæst síðan árið 2014 en þá vann Ísland 9-1 sigur.
Ísland er ein af fjórum þjóðum sem enduðu í 3. sæti síns riðils í A-deild Þjóðadeildarinnar. Hinar eru Belgía, Noregur og Svíþjóð. Þessar þjóðir drógust svo gegn liðunum sem enduðu í 2. sæti riðlanna í B-deild, sem eru Bosnía, Króatía, Ungverjaland og Serbía, og spila þessar þjóðir um sæti í A-deild á næsta ári.
Umspilið um sæti í A-deild 2024:
Serbía – Ísland
Ungverjaland - Belgía
Bosnía – Svíþjóð
Króatía - Noregur
Ísland mun leika fyrri leik sinn í umspilinu á útivelli 21. febrúar, og á heimaleik 28. febrúar en óljóst er hvar sá leikur fer fram. Stjórn KSÍ ákvað á dögunum að biðja um leyfi hjá UEFA til að leikurinn færi fram erlendis, vegna vallarmála á Íslandi. Eini völlurinn með lögleg flóðljós hér á landi er Laugardalsvöllur sem ekki er leikfær í febrúar, en mögulegt væri að spila á gervigrasvelli ef hægt væri að spila snemma dags og veðurskilyrði yrðu í lagi.
Frakkar og Spánverjar á heimavelli í undanúrslitum
Frakkland, Holland, Þýskaland og Spánn unnu sína riðla í A-deild Þjóðadeildarinnar og spila því í úrslitum keppninnar, um nýjan verðlaunagrip í þessari nýju keppni. Þrjú þessara liða fara svo á Ólympíuleikana í París næsta sumar en þar af eru Frakkar sem eru með öruggt sæti á ÓL sem gestgjafar.
Spánn og Frakkland fengu heimaleik í undanúrslitum keppninnar, og Spánn eða Holland verður svo á heimavelli í úrslitaleiknum.
Úrslit Þjóðadeildarinnar:
Spánn - Holland
Frakkland - Þýskaland
Í dag var einnig dregið um það hvaða lið mætast í umspili á milli liða úr B- og C-deild, þar sem leikið verður um sæti í B-deild á næsta ári.
Umspilið um sæti í B-deild 2024:
Lettland – Slóvakía
Svartfjallaland – Norður-Írland
Búlgaría - Úkraína