Körfubolti

Lög­mál leiksins: Hvort er Celtics eða Lakers sigur­sælla?

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
LeBron James í leik gegn Boston Celtics.
LeBron James í leik gegn Boston Celtics. Barry Chin/Getty Images

Hinn stórskemmtilegi liður „Nei eða Já“ var á sínum stað í Lögmál leiksins. Heitasta umræðuefnið að þessu sinni var hvort Los Angeles Lakers væri nú sigursælasta lið í sögu NBA-deildarinnar eftir að sigra fyrstu bikarkeppni deildarinnar frá upphafi.

„Nei eða Já“ virkar þannig að Kjartan Atli Kjartansson, þáttastjórnandi, setur fram fullyrðingu sem sérfræðingarnir taka afstöðu til og rökstyðja svo svar sitt. Það gerðu menn svo sannarlega þegar kom að Lakers vs. Celtics umræðunni.

LeBron James og félagar í Lakers urðu um helgina bikarmeistarar eftir öruggan sigur á Indiana Pacers. Um var að ræða fyrstu bikarkeppni í sögu deildarinnar og fer það eftir hver er spurður hvort þessi titill telji eður ei.

Þetta var 18. titill Lakers, 17 NBA-titlar og einn bikartitill, sem þýðir að félagið hefur lyft einum titli meira en Boston Celtics. Ekkert lið deildarinnar hefur unnið fleiri titla en þessi tvö félög.

Er Lakers þar með sigursælasta félag í sögu NBA?

„Jájá, 100 prósent. Það er bara þannig. 17 + 1, Boston er bara með 17,“ sagði Tómas Steindórsson án þess að blikka.

Hörður Unnsteinsson var ekki sömu skoðunar: „Þetta er bara prinsipp mál fyrir mér, ég tel ekki þessa titla með,“ sagði hann um titlana tvo sem Lakers vann þegar liðið var enn staðsett í Minneapolis. Að hans mati er Celtic því enn sigursælasta lið NBA-deildarinnar.

Klippa: Lögmál leiksins: Hvort er Celtics eða Lakers sigursælla?

Aðrar fullyrðingar að þessu sinni voru: Tyrese Haliburton er betri en Shai Gilgeous-Alexander, Victor Wembanyama hefur fengið gott NBA uppeldi hingað til og Trae Young þarf að umbylta sínum leikstíl til að verða partur af góðu liði.

„Nei eða Já“ má sjá í heild sinni í spilaranum hér fyrir ofan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×