Fyrir leik Porto og Shaktar Donetsk í Portúgal í kvöld voru liðin jöfn að stigum með níu stig og því um að ræða hreinan úrslitaleik um sæti í 16-liða úrslitum.
Og það vantaði ekki mörkin í Portúgal. Wenderson Galeno kom Porto í 1-0 á 9. mínútu en Danylo Sikan jafnaði fyrir gestina á 29. mínútu. Galeno skoraði hins vegar sitt annað mark skömmu fyrir lok fyrri hálfleiks og Porto því með 2-1 forystu í hálfleik.
Í upphafi síðari hálfleiks kom Mehdi Taremi heimamönnum í 3-1 en sjálfsmark Stephen Eustaquio á 72. mínútu hélt spennu í leiknum. Hinn margreyndi Pepe kom Porto í 4-2 skömmu síðar og Chico Conceicao gulltryggði sæti Porto í 16-liða úrslitunum með marki átta mínútum fyrir leikslok.
Eguinaldo klóraði í bakkann fyrir Shaktar á 88. mínútu. Lokatölur 5-3 og Porto fer áfram en Shaktar Donetsk í umspil um sæti í Evrópudeildinni.
Royal Antwerp gerði sér lítið fyrir og lagði Barcelona í þessum sama riðli. Þetta var fyrsti sigur belgíska liðsins sem endar þó í neðsta sæti riðilsins en Barcelona náði toppsætinu þrátt fyrir tapið í kvöld.
Á Spáni tryggði Atletcio Madrid sér efsta sætið í E-riðli með 2-0 sigri á Lazio. Antoine Griezmann og Samuel Lino skoruðu mörk Atletico sem endar með fjórtán stig í riðlinum en Lazio nær öðru sætinu.
Í þriðja sæti riðilsins endaði Feyenoord sem tapaði 2-1 fyrir Celtic í Skotlandi. Það var fyrsti sigur Celtic í riðlinum sem endaði þó í neðsta sæti.
Úrslit í leikjum dagsins:
Porto - Shaktar Donetsk 5-3
Atletico Madrid - Lazio 2-0
Rauða Stjarnan - Manchester City 2-3
Leipzig - Young Boys 2-1
Dortmund - PSG 1-1
Newcastle - AC Milan 1-2
Celtic - Feyenoord 2-1
Royal Antwerp - Barcelona 3-2