Dawid heldur úti vinsælu ferðabloggi og hefur verið iðinn við að deila reynslu sinni á samfélagsmiðlum á borð við Instagram, Facebook og TikTok.
Í nýlegri færslu á Instagram segir Dawid að hann og unnusta hans hafi hvort um sig náð að safna rúmlega tveimur milljónum íslenskra króna með því að vinna í hálft ár á Íslandi. Þau hyggjast nota sparnaðinn til að halda sér uppi næsta hálfa árið, á meðan þau ferðast um Nýja Sjáland og Ástralíu.
Að sögn Dawid hafa þau náð að láta hlutina ganga upp með því að lifa mjög spart; þau ferðast að mestu leyti á „puttanum“ og versla útileigugræjur og annan ferðaútbúnað í ódýrum netverslunum á borð við Aliexpress.
Dawid segist fá fjölda skilaboða og fyrirspurna á degi hverjum, frá einstaklingum sem vilja koma til Íslands og feta í hans fótspor. Hann hefur verið iðinn við að deila hagnýtum ráðum til þeirra sem vilja búa og starfa á Íslandi og hefur meira að segja gefið út rafbók sem ber titililinn „Svona getur þú uppfyllt drauma þína og starfað á Íslandi.“ Í bókinni má finna margvíslegar ráðleggingar varðandi atvinnuleit hér á landi.
Þá segir hann að yfir 100 Pólverjar hafi komið til Íslands og fundið vinnu hér á landi, eftir að hafa lesið bókina hans.
Dawid segir á Íslandi sé tiltölulega auðvelt að finna vinnu þar sem frítt fæði og húsnæði fylgir með. Hann hvetur fylgjendur sína til að láta drauma sína rætast:
„Það er allt hægt. Þú þarft bara að taka fyrsta skrefið.“