Vinna við varnargarðana í Svartsengi er í fullum gangi og til að trufla ekki þá vinnu verða gestir ferjaðir fyrstu fjóra dagana með rútum í Bláa lónið.
Starfsmenn Bláa lónsins eru um átta hundruð. Hótelin verða ekki opnuð aftur að svo stöddu heldur aðeins baðlónið.
„Við erum alveg gríðarlega spennt og glöð að fá loksins að opna aftur eftir fimm vikna lokun. Við erum búin að vera að reyna að nýta tímann eins og hægt er að fara yfir húsnæðið okkar og annað slíkt en auðvitað er þetta búinn að vera mikill óvissutími. Við vorum hér í morgun með einmitt rýmingaræfingu með okkar fólki öllu og það var gríðarlega gott að sjá bara fólkið og maður fann það að fólkinu fannst gott að koma aftur. Hitta hvort annað og það var gríðarlega góðstemning í hópnum,“ segir Helga Árnadóttir framkvæmdastjóri sölu, rekstar og þjónustu Bláa lónsins.
Enn rís land í Svartsengi og nokkur jarðskjálftavirkni er á svæðinu þó dregið hafi úr henni. Helga segir að koma til rýmingar vegna jarðhræringanna þá taki hún stuttan tíma. Æfingin í dag hafi sýnt það.
„Þá gætu við rýmt á mun styttri tíma en yfirvöld hafa boðað að við þyrftum að geta rýma innan.“
Helga telur að gestir verði til að byrja með töluvert færri en þeir eru að jafnaði eða um þrjú til fimm hundruð á hverjum tíma.
„Það eru bara ágætis bókanir. Auðvitað ekki eins mikið og við eigum að venjast á þessum tíma en við höfum verið heppin með það að fólk hefur ekki verið að afbóka og svona beðið í voninni að við myndum verða búin að opna og okkur þykir vænt um það. Þannig að við hlökkum til.“