Innlent

Nauð­syn­legt að nýr viti verði byggður

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Gjögurviti var reistur árið 1921. 
Gjögurviti var reistur árið 1921.  Litli Hjalli

Gjögurviti við Strandir í Árneshreppi er fallinn. Vitavörður telur líklegt að óveður seinni partinn í gær hafi gert út af við vitann, sem hafði staðið í rúma öld. Hann segir nauðsynlegt að nýr viti verði reistur hið snarasta. 

Á Litla Hjalla, fréttavef frá Árnesi, kemur fram að starfsmenn Gjögurflugvallar hafi uppgötvað að vitinn væri fallinn þegar þeir komu til vinnu í morgun. Þá segir að grindin hafi verið orðin mjög ryðguð og sums staðar nærri ryðbrunnin í sundur. 

„Ég átti von á að þetta myndi ske hvenær sem væri,“ segir Jón Guðbjörn Guðjónsson eftirlitsmaður vitans í samtali við Vísi, aðspurður hvort hann hafi búist við falli vitans. Hann segir stálgrindinni ekki hafa verið haldið við í langan tíma, hið minnsta síðan árið 1995. Vitinn hefði farið að ryðga og eitt sinn hafi eldingu slegið niður í hann.

Jón segir ljósabúnaði vitans hafa verið vel haldið við en stálgrindinni ekki. Litli Hjalli

Jón segir nauðsynlegt að nýr viti sé byggður til þess að hægt sé að veita skipum þá þjónustu sem hann hefur gert. Vegna skerja sé mikilvægt að Gjögurviti sé starfandi svo hægt sé að leiðbeina skipum sem eiga leið hjá rétta leið. „Það er ekki nóg að hafa ljós ef grindin stendur ekki,“ segir Jón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×