Körfubolti

Flautu­körfu­veisla í NBA í nótt og þrista­regn

Siggeir Ævarsson skrifar
Jimmy Butler getur leyft sér að brosa
Jimmy Butler getur leyft sér að brosa Vísir/Getty

Boðið var upp á miklar dýrðir í NBA í nótt, einn leikur vannst á flautukörfu og annar með 0,9 sekúndur á klukkunni. Þá féllu og bættust met hægri vinstri.

Jimmy Butler tryggði sínum mönnum í Miami Heat sigur á Chicago Bulls við mikinn fögnuð áhorfenda. Þetta var önnur sigurflautukarfa Butler fyrir Heat síðan hann kom til liðsins 2019. Í viðtali eftir leik sagði hann að eftir að hafa klikkað á flautukörfu á móti Knicks á dögunum hafi aldrei neitt annað komið til greina en að setja þessa ofan í.

Í Denver tóku ríkjandi meistarar Nuggets á móti Oklahoma City Thunder og þar var dramatíkin ekki minni. Shai Gilgeous-Alexander sallaði niður 25 stigum og tryggði gestunum svo sigurinn úr erfiðu skoti með 0,9 sekúndur á klukkunni.

Í Portland vann Dallas Mavericks góðan sigur á heimamönnum þar sem Luka Doncic fór á kostum. Skoraði 40 stig, tók 12 fráköst og gaf tíu stoðsendingar. Þetta var 8. leikur hans á ferlinum þar sem hann nær í þrefalda tvennu samhliða því að skora 40 stig, og tók hann fram úr Wilt Chamberlain á listanum yfir slíka ofur leiki.

Þá setti Keegan Murray félagsmat hjá Sacramento Kings yfir flesta þrista í einum leik þegar hann setti tólf slíka á móti Utah Jazz, í aðeins þrettán tilraunum. 47 stig frá honum í öruggum sigri, 125-104.

Þá er vert að minnast á að lokum met sem féll í nótt, þegar Charlotte Hornest töpuðu gegn Philadelphia 76ers, 135-82, en þetta 53 stiga tap er stærsta tap í sögu félagsins. Joel Embiid gerði sér lítið fyrir og skoraði 42 stig og tók 15 fráköst. Var þetta 10. leikur hans í röð þar sem hann skorar í það minnsta 30 stig og tekur tíu fráköst, en aðeins þrír leikmenn, að honum meðtöldum, hafa náð slíkri hrinu á síðustu 50 árum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×