Lífið

Sköll­óttur rakari á Siglu­firði gerir það gott

Magnús Hlynur Hreiðarsson skrifar
Skölótti rakarinn á Siglufirði, Jón Hrólfur, sem er alltaf hress og skemmtilegur og nýtur þess að vera ekki með hár á höfðinu en sér þó um að snyrta hár og skegg annarra í bæjarfélaginu.
Skölótti rakarinn á Siglufirði, Jón Hrólfur, sem er alltaf hress og skemmtilegur og nýtur þess að vera ekki með hár á höfðinu en sér þó um að snyrta hár og skegg annarra í bæjarfélaginu. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Eini rakarinn á Siglufirði, sem er sköllóttur segist ekki mynda þiggja það að fá hár aftur enda sé dásamlegt að vera sköllóttur. Rakarinn hefur hins vegar meira en nóg að gera í vinnunni við að klippa heimamenn og snyrta skeggið á körlunum.

Það er alltaf meira en nóg að gera hjá eina rakaranum á Siglufirði og þar er líka eins konar félagsmiðstöð því þar koma margir yfir daginn til að fá sér kaffisopa þó þeir séu ekki að fara í klippingu, bara að hittast og spjalla saman. Stofan heitir Hrímnir hár og skeggstofa.

„Já, já, það er fínt í klipperíinu og alltaf nóg að gera. Ég á mikið af góðum kúnnum, sem eyða „böns af monní” fyrir lélega klippingu,” segir Jón Hrólfur Baldursson rakari og skellihlær.

Og Jón Hrólfur er meira að segja með bar og skemmtistað í næsta herbergi við rakarastofuna þar sem er til dæmis hægt að fara í snóker og pílu eða gera eitthvað annað skemmtilegt.

„Það er bjór, gin og tónik, það er það vinsælasta á barnum,” segir hann.

Samhliða rakarastofunni er Jón Hrólfur með bara og skemmtistað, sem gengur vel.Magnús Hlynur Hreiðarsson

En aftur á rakarastofuna því Jón Hrólfur segist alltaf fá eitthvað af ferðamönnum í stólinn til sín þó að heimamenn séu uppistaðan í kúnnahópnum enda hafi þeir ekkert val, hann sé með einu rakarastofuna á Siglufirði.

En hver er vinsælasta klippingin ?

„Vinsælasta klippingin hjá yngri guttunum er svona „feid” en þá eyðir maður alveg út niður í núll en þetta hjá þeim sem eru komnir með konu og þurfa ekki að hafa áhyggjur af neinu, þá er þetta bara vinsælasta klippingin, drífa þetta af.”

En hver snyrtir skeggið á Jóni Hrólfi og klippir hann?

„Ég verð bara að gera það sjálfur, enda er ég sköllóttur, það er sá pakki. Það er mjög gott að vera sköllóttur, ég hugsa að ég myndi ekki þiggja það að fá hár aftur en ég vil þó ekki hafa alla sköllótta þó það sé þægilegt, ég verð að hafa eitthvað að gera,” segir Jón Hrólfur hlægjandi.

Stofan hjá Jóni Hrólfi heitir Hrímnir hár og skeggstofa. Reksturinn gengur vel enda alltaf nóg að gera.Magnús Hlynur Hreiðarsson





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.