Búast má við norðan stormi vindhraða á bilinu 18-25 metrum á sekúndu og mjög hvössum og varhugaverðum vindhviðum við fjöll, staðbundið yfir 35 metrum á sekúndu. Þetta kemur fram í færslu á vef Veðurstofunnar. Áður hafði verið gefin út viðvörun vegna mikillar hættu á snjóflóði á morgun.
Í færslunni segir að einnig sé spáð talsverðri eða mikilli snjókomu og éljagangi með lélegu skyggni og versnandi akstursskilyrðum. Víðtækar samgöngutruflanir eru líklegar og ekkert ferðaveður er á meðan viðvörunin er í gildi. Fólki er bent á að sýna varkárni og fylgjast með veðurspám.
Ekki hægt að sinna mokstri
Í tilkynningu frá Vegagerðinni kemur fram að líklega verði ekki hægt að sinna mokstri á því svæði meðan veður gengur yfir. Það er því hætt við að ekki verði mokað milli þéttbýliskjarna á Vestfjörðum á morgun. Staðan verður endurmetin kl. 9 í fyrramálið.
Varðskipið Freyja er væntanlegt upp úr hádegi til Ísafjarðar þar sem það verður til taks á meðan versta veðrið gengur yfir.