Innlent

Unnu þrí­víddar­módel sem veitir upp­lýsingar um skemmdir í Grinda­vík

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Módelið var unnið af EFLU með hjálp dróna.
Módelið var unnið af EFLU með hjálp dróna. EFLA

Myndmælingateymi verkfræðistofunnar EFLU hefur lokið við þrívíddarmódel af Grindavík. Módelin gefa haldbæra mynd af ástandi fasteigna og mannvirkja í Grindavík.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá EFLU. Þar segir að módelin séu meðal annars notuð við mat á skemmdum í kjölfar jarðhræringanna sem riðið hafa yfir Grindavík og nágrenni að undanförnu.

„Yfir 60 drónaflug hafa verið flogin yfir Grindavík til að ná sem nákvæmastri mynd af ástandi bæjarins. Þannig var hægt að mynda allan bæinn úr 200 metra hæð yfir sjávarmáli og einnig voru ákveðin sprungusvæði myndum neðar til þess að fá skýrari mynd af þeim. Gerðar voru ítrekaðar tilraunir til þess að hitamynda bæinn til að finna skemmdir á hitaveitulögnum en aðstæður til slíkrar myndatöku þurfa að vera háðar margskonar skilyrðum á vettvangi sem ekki voru fyrir hendi þegar til átti að taka,“ segir í tilkynningunni.

Þá kemur einnig fram að vinna við verkefnið hafi hafist um miðjan nóvember. Vinnsla upplýsinganna sem nú liggi fyrir hafi í senn verið tímafrek og umfangsmikil.

Nú hafi verið ákveðið að gera upplýsingarnar aðgengilegar íbúum og öðrum þeim sem not kunni að hafa fyrir gögnin.

Hér er hægt að nálgast kortið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×