Innlent

Tunglið var sjáan­legt í allan dag

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Tunglið og Esjan í dag, á þriðja degi jóla. 
Tunglið og Esjan í dag, á þriðja degi jóla.  Vísir/Sigurjón

Máninn hátt á himni skein í dag. Tunglið reis hvorki né settist, heldur var það allan daginn á lofti. Sjónarspilið sem fylgdi var glæsilegt og ekki skemmdi fyrir að tunglið var fullt. 

Að sögn Sævars Helga Bragasonar jarðfræðings er það hnattstöðu Íslands, möndulhalla jarðar og halla tunglbrautarinnar að þakka. Hann birti færslu á Facebook í dag þar sem hann útskýrði þennan sérstaka atburð. 

Tunglið í desember eins og sólin á sumrin

„Sporbraut tunglsins um Jörðina hallar um 5 gráður miðað við sporbraut Jarðar um sólu. Á annan í jólum var tunglið nánast eins nyrst á sporbraut sinni um Jörðina. Jörðin hallar líka og eru áhrifin á hæð tunglsins á himni einna mest nálægt sólstöðum. Tunglið var þess vegna mjög hátt á lofti frá okkur séð síðasta sólarhring,“ er útskýring Sævars, eða Stjörnu-Sævars. 

Hann segir að í desember líki tunglið eftir ferðalagi sólar um himininn á sumrin, eða því sem næst. Nú sé það fullt en fari minnkandi þar til það er nýtt 11. janúar næstkomandi. 

Sigurjón Ólason, tökumaður Vísis, festi sjónarspilið á filmu í dag. Afraksturinn má sjá hér að neðan með undirleik Tunglskinssónötunnar eftir Beethoven.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×