Innlent

Þórarinn Snorra­son í Vog­sósum látinn

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þórarinn Snorrason í Vogsósum var síðasti oddviti Selvogshrepps.
Þórarinn Snorrason í Vogsósum var síðasti oddviti Selvogshrepps. Magnús Hlynur Hreiðarsson

Þórarinn Snorrason, bóndi í Vogsósum 2 í Selvogi, er látinn, 92 ára að aldri. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands á Selfossi á jóladag. Hann hafði legið á sjúkrahúsi um mánaðarskeið eftir að hafa lærleggsbrotnað er hann féll við útistörf við fjárhúsin í Vogsósum en þar stundaði hann sauðfjárbúskap.

Þórarinn var fæddur í Vogsósum þann 8. ágúst árið 1931. Hann var síðasti oddviti og hreppsstjóri Selvogshrepps en hreppurinn sameinaðist Ölfusi árið 1989. Þá var hann stóran hluta ævi sinnar helsti vörslumaður Strandarkirkju sem formaður sóknarnefndar en einnig um tíma sem meðhjálpari og hringjari.

Eiginkona hans var Elisabeth Charlotte Johanna Herrmann. Hún fæddist í Þýskalandi þann 28. desember 1927. Hún lést árið 2018. Þau gengu í hjónaband árið 1954 og eignuðust fimm börn en afkomendahópurinn telur auk þeirra núna níu barnabörn og þrjú barnabarnabörn.

Þórarinn var aðalviðmælandi í þættinum Um land allt sem Stöð 2 gerði um Selvoginn haustið 2013. Þar sagði Þórarinn meðal annars frá kynnum sínum af skáldinu Einari Benediktssyni, sem bjó síðustu æviár sín í Herdísarvík. 

Hér má sjá þáttinn um Selvog:

Þórarinn var á barnsaldri þegar Einar Benediktsson bjó í Selvogi, kom oft í Herdísarvík og man vel eftir honum. Þórarinn rifjaði meðal annars upp þegar hann varð vitni að hinstu för Einars úr Herdísarvík þegar lík hans var borið til Vogsósa en þá var enginn vegur kominn þar á milli.

Frétt um kynni Þórarins af Einari má sjá hér:


Tengdar fréttir

Strákurinn sem kynntist Einari í Herdísarvík

Þótt yfir sjötíu ár séu liðin frá því Einar Benediktsson skáld lést í Herdísarvík má enn finna mann í Selvogi sem umgekkst Einar á síðustu æviárum hans þar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×