Erlent

Úkraínsk körfu­bolta­hetja fórst í stór­felldum á­rásum Rússa

Eiður Þór Árnason skrifar
Árásir Rússa í gær skildu eftir sig miklar rústir í Zaporizhzhia í Úkraínu.
Árásir Rússa í gær skildu eftir sig miklar rústir í Zaporizhzhia í Úkraínu. AP/Andriy Andriyenko

Einn fórst og fjórir særðust í loftárásum Úkraínuhers á landamærahéraðið Belgorod í suðurhluta Rússlands í gær. Þetta segir héraðsstjóri Belgorod en Bryansk-hérað varð sömuleiðis fyrir eldflaugaárásum Úkraínumanna.

Varnarmálaráðuneyti Rússlands tilkynnir að loftvarnarkerfi hafi grandað nærri tuttugu eldflaugum og drónum. Árásin kemur í kjölfar stórfelldra eldflaugaárása Rússa á Kænugarð og aðrar úkraínskar borgir í gærmorgun sem varnarmálaráðherra Úkraínu sagði þær umfangsmestu frá því að stríðið hófst í febrúar 2022.

Minnst þrjátíu almennir borgarar fórust í árás Rússa í gær og 160 særðust en meðal hinna látnu er úkraínska körfuboltagoðsögnin og fyrrverandi landsliðsmaðurinn Viktor Kobzystyi. Sá var 44 ára gamall og spilaði tvisvar með landsliðinu á Evrópumóti og þjálfaði meðal annars síðar lið Dynamo Kyiv í úrvalsdeild kvenna. 

Kobzystyi fórst í árás á borgina Lvív og var talinn ein af merkustu körfuboltastjörnum landsins. Hann er faðir Oleksandr sem hefur jafnframt verið lýst sem einni skærustu stjörnu evrópsks körfubolta. Anton Nikulin, formaður íþróttaráðs Lvív-borgar, minntist Kobzystyi á Facebook og vottaði fjölskyldu hans samúð sína.

Biden varar við stöðvun á hergagnasendingum

Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna var kallað saman með skömmum fyrirvara í gær og samþykktu flestar þjóðir með sæti í ráðinu að fordæma loftárásir Rússa. The Guardian greinir frá því að Bretar hyggist nú senda um 200 loftvarnaflaugar til Úkraínu í kjölfar árásarinnar. 

Joe Biden Bandaríkjaforseti krafðist þess að Bandaríkjaþing ynni saman að því að samþykkja frekari aðstoð til Úkraínu þar sem vopna- og varnarkerfasendingar til landsins muni að óbreyttu stöðvast. Biden sagði umfangsmiklar loftárásir Rússa í gærmorgun sýna að rússnesk stjórnvöld vilji „þurrka út“ ríkið sem hafi verið hliðhollt vestrænum gildum.

Ráðamenn í Úkraínu hafa sömuleiðis ítrekað ákall sitt eftir frekari hergagnasendingum frá Vesturlöndum svo það geti varist loftárásum á borð við þær sem úkraínskar borgir urðu fyrir í gærmorgun.

Vyacheslav Gladkov, héraðsstjóri rússneska landamærahéraðsins Belgorod, sagði að einn hafi farist í áðurnefndri eldflaugaárás úkraínuhers á íbúðabyggingu í gær. Hann bætti við að vatnsleiðslukerfi samnefndrar borgar lægi undir skemmdum.


Tengdar fréttir

Umfangsmestu loftárásir Rússa hingað til

Talsmaður flughers Úkraínu segist aldrei hafa upplifað jafn margar árásir á sama tíma eins og Rússar hafa gert nú í morgun. Rússar gerðu loftárásir um allt land og notuðu til þess bæði eldflaugar og dróna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×