Lífið

„Ef þú ætlar að endast í ein­hverju, þá verður að vera gaman“

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Atli Fannar er eigandi líkamsræktarstöðvarinnar Afreks.
Atli Fannar er eigandi líkamsræktarstöðvarinnar Afreks. Vísir

Nýtt ár er gengið í garð og því fylgja að sjálfsögðu áramótaheit. Líkt og fyrri ár er fjöldi fólks sem strengir þess heit að sinna líkamsræktinni betur en árið á undan. Eigandi líkamsræktarstöðvar segir skemmtun lykilinn að árangri. 

„Maður finnur alltaf fyrir miklum áhuga í janúar. Þetta eru svona nokkrir punktar á árinu þar sem fólk rífur sig í gang aftur, en hér í Afreki finnum við reyndar líka fyrir því að fólk er að ná einhverju góðu jafnvægi,“ segir Atli Fannar Bjarkason, eigandi líkamsræktarstöðvarinnar Afreks. 

Stöðin hafi verið opin, og troðfull, á aðfangadag, jóladag, gamlársdag og nýársdag.

„Áramótin eru kannski ekki endilega þessi risapunktur, því við viljum bara að allir séu að ná góðu jafnvægi,“ segir Atli.

Skemmtunin lykill að árangri

Hann telur fjölda fólks fara of geyst af stað í áramótaræktinni. Slíkt beri að varast. 

„Fara of geyst af stað, kannski meiða sig eða gera of mikið, og hætta þá kannski að nenna. Þess vegna er lykilatriði að finna sér sjálfbæra leið til að gera þetta. Finna sér eitthvað gaman til þess að gera, mæta kannski ekki of oft í fyrstu. Frekar að byrja hægt og koma sér betur af stað.“

Aðalmálið sé að hafa gaman af líkamsræktinni.

„Ef þú ætlar að endast í einhverju, þá verður að vera gaman. Og ef þú ætlar að ná árangri, þá verður þú að endast. Þannig að þetta vinnur allt saman,“ segir Atli Fannar. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×