Nú þegar tæpir fjórir dagar eru liðnir frá því að Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands tilkynnti að hann gæfi ekki aftur kost á sér til lengri setu hafa að minnsta kostið þrír stigið fram og tilkynnt að þeir ætli að gefa kost á sér í næstu kosningum sem fara fram 1. júní. Þó nokkur fjöldi segist á samfélagsmiðlum vera að íhuga að bjóða sig fram. Þá eru líklega einhverjir byrjaðir að máta sig við embættið með því að fá spunameistara til að nefna nöfn sín í opinberri umræðu.
Loks er hægt að líta til fjölda frambjóðenda síðast þegar embættið var laust eða árið 2016 þegar 22 tilkynntu að þeir ætluðu að bjóða sig fram, níu skiluðu svo nægum fjölda meðmælenda þá eða 1.500 manns. Það er sami fjöldi meðmælenda og og þarf nú og þurfti þegar lögin tóku gildi árið 1945 og Íslendingar voru 127 þúsund. Landsmenn eru nú tvö hundruð þúsund fleiri en þá.
Eiríkur Bergmann prófessor í stjórnmálafræði telur nauðsynlegt að breyta þessu í stjórnarskránni.
„Þetta er fullkomin tímaskekkja en Alþingi hefur mistekist að uppfæra stjórnarskránna í þessum atriðum sem öðrum sem hefur leitt til þess að þessi þröskuldur er orðin ansi lágur. Við getum því átt von á miklum fjölda frambjóðenda. Ef að þessi þröskuldur hefði fylgt mannfjöldaþróun hefði þurft um 6.000 undirskriftir sem þarf töluvert afl til að safna,“ segir Eiríkur.
Hann segir að það þurfi að fara í miklar endurbætur á kaflanum um forsetann í stjórnarskránni.
„Allur forsetakafli stjórnarskrárinnar er mjög óljós. Það stóð alltaf til við lýðveldistökuna að uppfæra kaflann til nútímahorfs en það hefur aldrei tekist þrátt fyrir fjölmargar tilraunir þar á meðal Stjórnlagaráðs 2010,“ segir Eiríkur.
Ekki lengur sameiningartákn
Eiríkur segir vissa hættu á að forsetaembættið verði ekki það sameiningartákn sem það eigi að vera.
„Sá frambjóðandi sem hlýtur flest atkvæði í forsetakosningunum nú hlýtur embættið sama hversu lágt hlutfallið er. Eiríkur segir að þetta geti orðið til þess að það verði ekki sama eining um embættið og áður.
„Dreifist atkvæðin á mjög marga frambjóðendur þá er hætta á því að næsti forseti verði kjörinn með lágu hlutfalli atkvæða. Það fari jafnvel undir tuttugu prósent. Þá myndi sitja í embætti forseta, einstaklingur sem hefði lítinn stuðning þjóðarinnar. Embættinu sem er ætlað að vera sameiningartákn væri orðið af einhverju allt öðru. Það hefði verið hægt að koma í veg fyrir það ef það hefði verið búið að breyta lögum og setja t.d. inn að það þyrfti að kjósa milli tveggja efstu frambjóðendanna,“ segir Eiríkur.