Körfubolti

Flautu­karfa rétt framan við miðju tryggði Nug­gets sigur

Siggeir Ævarsson skrifar
Jokic og félagar í Nuggets fagna sigurkörfunni
Jokic og félagar í Nuggets fagna sigurkörfunni Vísir/EPA

NBA meistarar Denver Nuggets virðast óðum vera að finna taktinn en liðið lagði Golden State Warriors í nótt þar sem Nikola Jokic skoraði ótrúlega sigurkörfu.

Jokic var allt í öllu í sóknarleik Nuggets með 34 stig, tíu stoðsendingar og níu fráköst. Hann jafnaði leikinn 127-127 þegar 26 sekúndur voru til leiksloka og Stephen Curry tapaði svo boltanum í næstu sókn Warriors sem færði Nuggets gullið tækifæri til að klára leikinn.

Nuggets tóku leikhlé með 3,6 sekúndur á klukkunni þar Michael Malone, þjálfari Nuggets, teiknaði upp einfalt plan fyrir Jokic. „Driplaðu boltanum tvisvar svo þú komist yfir miðju og skjóttu.“

Einfalt plan en það bar árangur en Jokic sagði sjálfur að þetta væru auðveldustu skotin að taka því það væri bara einn möguleiki í boði. 

Eftir að hafa tapað þremur leikjum í röð í byrjun desember hafa meistarar Nuggets nú unnið ellefu af síðustu 13 leikjum sínum og sitja í 3. sæti Vesturdeildarinnar. Golden State Warriors halda aftur á móti áfram að berjast í bökkum en liðið er enn undir 50 prósent vinningshlutfalli, í 11. sæti Vesturdeildarinnar með 16 sigra og 18 töp.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×