Körfubolti

Lög­mál leiksins: „Hann er ekki fram­tíðin“

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Kuminga er með 12,8 stig að meðaltali í leik á leiktíðinni.
Kuminga er með 12,8 stig að meðaltali í leik á leiktíðinni. Thearon W. Henderson/Getty Images

„Nei eða Já“ var á sínum stað í Lögmál leiksins í gærkvöld. Þar var farið yfir stöðu Jonathan Kuminga hjá Golden State Warriors, hvort Memphis Grizzlies komist í umspil, ekki lengur hægt að bera saman tölfræði fortíðar og nútíðar og að lokum Kevin Durant.

„Nei eða Já“ virkar þannig að þáttastjórnandi, Kjartan Atli Kjartansson, setur fram fullyrðingu sem sérfræðingar þáttarins; Tómas Steindórsson, Sigurður Orri Kristjánsson og Hörður Unnsteinsson þurfa að taka afstöðu ásamt því að rökstyðja svar sitt.

Warriors ætti að skipta Kuminga

„Jájá,“ sagði Tómas án þess að blikka.

„Eiga þeir að henda framtíðinni fyrir nútíðina,“ spurði Kjartan Atli áður en Tómas svaraði aftur: „Hann er ekki framtíðin.“ 

Tómas vill sjá Stríðsmennina losa Kuminga ef þeir geta fengið eitthvað fyrir hann. Sigurður Orri og Hörður voru ósammála þar sem verðgildi Kuminga hefur aldrei verið lægra og því svo gott sem tilgangslaust að skipta honum. Sigurður tók þó fram að hann væri ekki hrifinn af leikmanninum en Hörður telur að hann gæti alveg virkað í öðru liði.

„Hann gæti sprungið út. Stundum er það bara þannig, þú þarft að fara eitthvað annað til að blómstra,“ sagði Hörður áður en Sigurður Orri benti á að skapgerð leikmannsins væri rautt flagg (e. red flag).

Klippa: Lög­mál leiksins: Hann er ekki fram­tíðin

„Warriors er á krossgötum með þessar tvær tímalínur sem átti að fleyta saman,“ sagði Kjartan Atli um stöðu mála hjá Golden State. „Sem er orðin engin tímalína,“ skaut Sigurður Orri þá inn í.

Aðrar fullyrðingar að þessu sinni voru: Nær Memphis Grizzlies að skríða inn í umspil, Nú er ekki lengur hægt að bera tölfræðina saman við fortíðina og Kevin Durant. 

„Nei eða Já“ má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×