Frá þessu greinir Morgunblaðið.
„Við höfum áður sagt að ef ríkisstjórnin leysir ekki úr þessu máli áður en Alþingi kemur saman þurfi þingið að grípa inn í. Nú virðist, samkvæmt athugunum okkar, sem meirihluti sé fyrir vantrauststillögu og í ljósi þess má gera ráð fyrir að við leggjum hana fram, verði málið ekki leyst í millitíðinni,“ segir Sigmundur.
Varðandi stuðning hinna stjórnarandstöðuflokkanna segir Sigmundur það myndu koma sér á óvart ef einhver þingmaður andstöðunnar greiddi ekki atkvæði með vantrausti. Þá gefur hann í skyn að nægilega margir stjórnarþingmenn myndu styðja tillöguna til að hún næði í gegn.
Sigmundur segir viðbrögð Svandísar við niðurstöðu Umboðsmanns Alþingis um að hún hafi brotið gegn lögum þegar hún setti tímabundið bann á hvalveiðar „ótrúleg“. Þá segir hann þetta spurningu um jafnræði.
„Það kom mér á óvart að sjá að Bjarni Benediktsson skyldi víkja sem ráðherra án þess að hafa rætt við Vinstri-græna, að því er virðist, að hið sama myndi gilda um þá,“ segir Sigmundur.
Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hefur þegar lýst því yfir að vantrauststillaga verði lögð fram gegn matvælaráðherra þegar þing kemur saman. Sagði hún í samtali við fréttastofu í gær að líklega yrði um að ræða sameiginlega tillögu stjórnarandstöðunnar.