Skoðun

Blóðs­út­hellingar í nafni friðar

Lárus Helgi Ólafsson skrifar

Samkvæmt nýjustu tölum hafa rúmlega 23.000 manns látið lífið síðan að styrjöld braust út á Gaza, þann 7. október á síðasta ári. Þá er einnig talið að um 60.000 manns hafi slasast í átökunum, misalvarlega. Tvær milljónir manna eru á vergangi í mikilli neyð þar sem vöntun er á mat, vatni og lyfjum. Af þessum 23.000 sem hafa látið lífið í átökunum eru u.þ.b. 10.000 börn. Já þið lásuð rétt, 10.000 börn. 18.000 börn hafa slasast í átökunum, sem virðist hvergi nærri lokið.

Samt er það svo að hver sá sem dirfist til að benda á þessa hræðilegu atburði sem eru í gangi fyrir botni Miðjarðarhafs er úthrópaður gyðingahatari, þrátt fyrir að hvergi sé þar hatur að finna. Það er hræðilegt að sjá hvað alþjóðasamfélagið virðist vera veikt í þessu máli og allar þær þjóðir sem telji sig berjast fyrir friði í heiminum geri lítið annað en að senda frá sér burðarlitlar yfirlýsingar, sem megi sín lítils í stóra samhenginu.

Mín spurning er því, hvers vegna höfum við ekki hærra? Af hverju erum við ekki að vinna í því samhliða nágrannalöndum og öðrum bandamönnum okkar að fara í harðari aðgerðir? Hverju hafa diplómatísku leiðirnar skilað hingað til?

Árás Hamas-liða á Ísrael þann 7. október var hræðileg að öllu leyti og ég hef ekki ennþá heyrt í þeim einstaklingi sem ver þær en það sem vesalings fólkið á Gaza hefur þurft að þola í kjölfarið er með öllu ómanneskjulegt. Ég get ekki fyrir nokkra muni sett mig í spor þessa fólks enda á ég erfitt með að sjá alla líkpokana í hverjum fréttatímanum á eftir öðrum. Hugur minn reikar samt til þess þegar ég ligg í rólegheitum með sonum mínum tveimur upp í hlýju og öruggu rúminu mínu á hverju kvöldi.

Ég held að ég tali fyrir hönd mörg þúsunda Íslendinga þegar ég bið háttvirtan utanríkisráðherra og alla íslenska þingmenn um að beita sér af meiri krafti fyrir fólkið í Palestínu. Við viljum ekki líta til baka eftir mörg ár og hugsa til þess að við sem þjóð höfum ekki gert allt sem í okkar valdi stóð til þess að stoppa þessi átök. Gerið það, standið með þeim sem minna mega sín og geta sér enga björg veitt.

Höfundur er faðir og kennari.




Skoðun

Skoðun

Þöggun

Guðbjörg Ása Jóns Huldudóttir,Margrét Kristín Blöndal,Margrét Rut Eddudóttir,Lukka Sigurðardóttir,Sigtryggur Ari Jóhannsson,Halldóra Jóhanna Hafsteins Âû skrifar

Sjá meira


×