Um­fjöllun, við­töl og myndir : Fjölnir - Valur 75-80 | Ís­lands­meistararnir aftur á sigurbraut

Andri Már Eggertsson skrifar
Dagbjört Dögg Karlsdóttir í leik kvöldsins gegn Fjölni
Dagbjört Dögg Karlsdóttir í leik kvöldsins gegn Fjölni Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Íslandsmeistarar Vals komust aftur á sigurbraut eftir fimm stiga útisigur gegn Fjölni 75-80. Valur hafði tapað fjórum leikjum í röð og sigurinn var afar kærkominn. 

Heimakonur í Fjölni byrjuðu leikinn betur og gerðu fyrstu sex stigin. Valur var í vandræðum til að byrja með sóknarlega. Eftir að hafa farið hægt af stað komst líf í sóknarleik Vals.

Fjölnir - Valur subway deild kvenna vetur 2024

Gestirnir byrjuðu á að hitta aðeins úr vítum en síðan datt Dagbjört Dögg Karlsdóttir í gang og gerði fimm stig á stuttum tíma. Eftir að Valur gerði tíu stig í röð komst meira jafnvægi í leikinn.

Fjölnir var einu stigi yfir eftir fyrsta leikhluta 22-21. Raquel Laneiro og Korinne Campbell gerðu 16 af 22 stigum Fjölnis.

Dagbjört gerði fyrstu körfuna í öðrum leikhluta en eftir það tók Fjölnir yfir leikinn. Heimakonur hittu nánast úr öllu á meðan ekkert gekk hjá Val. Fjölnir gerði fimmtán stig gegn aðeins tveimur hjá Val og Hjalti Þór Vilhjálmsson, þjálfari Vals, tók leikhlé í stöðunni 37-25.

Raquel Laneiro, leikmaður Fjölnis, í baráttunni í leik kvöldsins gegn Val Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Fjölnir hélt áfram að spila vel eftir því sem leið á annan leikhluta og Valskonur voru í vandræðum með að saxa niður forskot heimakvenna. Staðan í hálfleik var 44-35 og Fjölnir var verðskuldað níu stigum yfir.

Fjölnir geislaði af sjálfstrausti í þriðja leikhluta. Heimakonur spiluðu frábærlega og hittu nánast úr öllu. Á meðan allt var mjög auðvelt hjá Fjölni þurfti Valur að blæða fyrir hvert einasta stig. Varnarlega átti Valur engin svör gegn Fjölni og munurinn jókst.

Valur endaði þriðja leikhluta á fínum spretti þar sem gestirnir gerðu tíu stig gegn aðeins þremur. Fjölnir var níu stigum yfir þegar haldið var í síðasta fjórðung 64-55.

Fjölnir - Valur subway deild kvenna vetur 2024Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Valur lét það ekki slá sig út af laginu að Fjölnir byrjaði fjórða leikhluta á að setja niður þrist og komst tólf stigum yfir. Íslandsmeistararnir svöruðu með tíu stigum í röð og munurinn aðeins tvö stig 67-65.

Í stöðunni 71-65 tók Valur yfir leikinn. Dagbjört Dögg Karlsdóttir gerði níu stig í röð og áhlaup Vals endaði í þrettán stigum.

Fjölnir fékk sókn til þess að jafna leikinn þremur stigum undir og fara í framlengingu en skot Raquel Laneiro var of stutt og dreif ekki á hringinn. Valur fagnaði að lokum fimm stiga sigri 75-80.

Valskonur fögnuðu sigri að lokumVísir/Pawel Cieslikiewicz

Af hverju vann Valur?

Valskonur spiluðu frábærlega í fjórða leikhluta og náðu að snúa taflinu við eftir að hafa verið undir nánast allan leikinn. Í stöðunni 71-65 gerði Valur þrettán stig í röð og kláraði leikinn.

Hverjar stóðu upp úr?

Dagbjört Dögg Karlsdóttir spilaði frábærlega í síðari hálfleik og gerði níu stig í röð um miðjan fjórða leikhluta þegar að mest á reyndi. Dagbjört endaði á að gera 17 stig.

Brooklyn Pannell spilaði sinn fyrsta leik fyrir Val og var stigahæst með 27 stig. 

Hvað gekk illa?

Þetta var sjöundi tapleikur Fjölnis í röð. Fjölnir var leiðandi í tæplega tuttugu og fimm mínútur þangað til Valur komst yfir 71-72. Maður fékk þá tilfinningu að Fjölnir hefði ekki getuna í að klára ríkjandi Íslandsmeistara.

Fjórði leikhluti var skelfilegur hjá heimakonum en Valur vann síðasta fjórðung 11-25.

Hvað gerist næst?

Njarðvík og Fjölnir mætast næsta þriðjudag klukkan 19:15.

Á sama tíma mætast Valur og Fjölnir í Origo-höllinni.

Hallgrímur: Lokasóknin er mér að kenna og þetta fer í reynslubankann minn

Hallgrímur Brynjólfsson á hliðarlínunni í leik kvöldsins Vísir/Pawel Cieslikiewicz

Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari Fjölnis, var svekktur eftir sjöunda tap liðsins í röð.

„Mér fannst þreytan koma í ljós við erum tjónaðar svona ef ég fæ að væla aðeins. Ég var mjög ánægður með frammistöðuna og mér fannst við vera að gera þetta saman. Varnarlega vorum við góðar sem er asnalegt að segja þegar að við fengum á okkur 25 stig í fjórða leikhluta,“ sagði Hallgrímur og hélt áfram.

„Ég þarf að skoða leikinn betur og ég er tómur svona stuttu eftir leik til þess að koma með gáfuleg svör.“

Hallgrímur var ánægður með fyrri hálfleik liðsins en fannst Valur taka allt of mörg sóknarfráköst.

„Það sem hélt þeim inni í leiknum í fyrri hálfleik voru sóknarfráköst en við náðum að loka fyrir það í síðari hálfleik. Aftur á móti fórum við að tapa boltanum klaufalega þegar að þreytan fór að segja til sín.“

Fjölnir fékk sókn til þess að jafna leikinn undir lokin og Hallgrímur tók það á sig að liðið klikkaði og náði ekki að komast í framlengingu.

„Ég tek það á mig þar sem ég átti að teikna eitthvað mikið betur upp. Þær gerðu það sem ég sagði og það er ekkert út á þær að setja. Þetta fer í reynslubankann minn,“ sagði Hallgrímur Brynjólfsson að lokum. 

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira