Körfubolti

Hilmar Smári stiga­hæstur í sigur­leik

Siggeir Ævarsson skrifar
Hilmar Smári í leik með Haukum í fyrra
Hilmar Smári í leik með Haukum í fyrra Vísir/Diego

Hilmar Smári Henningsson átti skilvirkan leik með Bremerhaven í kvöld en hann var stigahæstur allra á aðeins rúmum 18 mínútum í þýsku B-deildinni.

Hilmar var greinilega mættur til að skora, en hann var með 60 prósent nýtingu utan af velli og eini tölfræðiþátturinn sem hann tikkaði í fyrir utan skor í kvöld var ein stoðsending. Bremerhaven sótti Nürnberg Falcons heim og urðu lokatölur leiksins 65-79.

Nafni hans Pétursson leikur einnig í sömu deild en hann og félagar í Uni Baskets Münster heimsóttu ART Giants Düsseldorf og fóru með tæpan sigur af hólmi, 65-67. Á tæpum 20 mínútum skoraði Hilmar tólf stig og bætti við tveimur stoðsendingum.

Annar íslenskur körfuknattleiksmaður var einnig í eldlínunni í kvöld þegar Alicante tók á móti Castello í spænsku B-deildinni. Jón Axel Guðmundsson leikur með Alicante en lét þó ekki mikið að sér kveða að þessu sinni, fjögur stig og fjórar stoðsendingar frá Jóni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×