Karen Björk kemur úr forsætisráðuneytinu þar sem hún starfaði fyrir samstarfsvettvanginn Sjálfbært Ísland, m.a. við gerð nýrrar landsstefnu um sjálfbæra þróun, utanumhald gerðar og kynningu sjálfbærniskýrslu Íslands til Sameinuðu þjóðanna og við að uppfæra aðgerðir stjórnvalda í loftslagsmálum.
Þar áður starfaði Karen Björk hjá Reykjavíkurborg á sviði loftslags- og sjálfbærnimála, meðal annars á skrifstofu borgarstjóra og borgarritara. Karen Björk hefur einnig stýrt skipulagningu ráðstefna og funda þ.á.m. fyrir Festu – miðstöð um sjálfbærni, og Norræna húsið. Þá var hún hluti af fyrsta árgangi verkefnisins Loftslagsleiðtoginn.
Karen Björk er með B.Sc. í viðskiptafræði og þjónustustjórnun frá CBS í Kaupmannahöfn og starfaði þar samhliða sem verkefnastjóri hjá sjálfbærniskrifstofu viðskiptaháskólans.
„Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Karen Björk til liðs við Transition Labs. Hún býr yfir dýrmætri reynslu og þekkingu á sviði loftslagsmála sem mun koma sér vel í þeim spennandi verkefnum sem eru framundan hjá okkur,“ segir Kjartan Örn Ólafsson, framkvæmdastjóri Transition Labs.
Karen Björk Eyþórsdóttir er spennt fyrir verkefninu.
„Ég er ótrúlega spennt að takast á við verkefnin hjá Transition Labs. Það eru forréttindi að fá að vinna við ástríðuna sína í frábæru og metnaðarfullu teymi hér á Íslandi, en á sama tíma að vinna að lausnum sem nýst gætu á heimsvísu. Ég hlakka til þess að fá að leggja mitt af mörkum við það að efla loftslagstengda nýsköpun og styðja við leiðandi fyrirtæki í þeim geira.“
í tilkynningu segir að Transition Labs vinni með mörgum metnaðarfyllstu loftslagsverkefnum heims, aðstoði þau við að hefja starfsemi hér á landi og skapa þannig fyrirmyndir að uppbyggingu loftslagsverkefna um allan heim.