Þetta er meðal þess sem fram kemur í tveimur tilkynningum frá lögreglunni. Í fyrri sagði að vinna myndi hefjast síðar í dag við að koma vatni og rafmagni á húsin í bænum. Því hefur hinsvegar verið frestað, af öryggisástæðum.
Önnur verðmætabjörgun er að sama skapi ekki í gangi. Segir lögregla að sú björgun fari ekki fram fyrr en kvarði á hættumatskorti Veðurstofu fer niður.
Hættumatskort Veðurstofunnar var gefið út gær og gildir þar til á morgun kl. 15:00 að öllu óbreyttu. Talin er vera mjög mikil hætta á jarðskjálftum, sprungum, hraunflæði, sprunguhreyfingum, gosopnun án fyrirvara og hættulegri gasmengun.
Almannavarnir taka áfram á móti húslyklum Grindvíkinga í dag og næstu daga í Þjónustumiðstöð Almannavarna í Tollhúsinu við Tryggvagötu. Þar er opnunartími frá 10 til 17.
Frétt uppfærð 10:42.
Fréttin var uppfærð með síðari tilkynningu lögreglunnar um að vinnu í Grindavík yrði frestað í dag af öryggisástæðum.