Innlent

„Eykur ó­vissuna enn og aftur“

Jón Þór Stefánsson og Lillý Valgerður Pétursdóttir skrifa
Otti Rafn Sigmarsson, björgunarsveitarmaður hjá Þorbirni, segir aðgerðir dagsins hafa gengið vel miðað við aðstæður.
Otti Rafn Sigmarsson, björgunarsveitarmaður hjá Þorbirni, segir aðgerðir dagsins hafa gengið vel miðað við aðstæður. Vísir/Vilhelm

Otti Rafn Sigmarsson, björgunarsveitarmaður hjá Þorbirni, segir að sér hafi liðið vel í Grindavík í dag þar sem hann, ásamt fleirum, vann í bænum. Vinnu við að koma hita og rafmagni á hús í Grindavík var frestað í dag vegna snjóþyngsla, en björgunarsveitir og slökkvilið voru í bænum og unnu að því að moka snjó.

„Það gekk bara alveg ágætlega. Auðvitað hefðum við viljað að það hefði gengið betur. Það stóð til að fá her pípulagningamanna til okkar, en af öryggisástæðum töldum við það ekki hægt,“ segir Otti.

„En við náðum allavega að moka allar götur.“

Otti segir að í röðum björgunarsveitarinnar og slökkviliðsins séu margir iðnaðarmenn. Því hafi þeir getað notað daginn og farið í hús sem þeir vissu að væru án rafmagns og hita og sinntu viðgerðum.

Aðspurður um hvernig honum líði með fréttir af áframhaldandi fréttir af kvikusöfnun og fleiri mögulegum eldgosum segir Otti þær óþægilegar.

„Auðvitað líður mér ekkert vel með það. Þetta eykur óvissuna enn og aftur. Óvissan er okkar versti óvinur, en við verðum að vona það besta og við höldum áfram.“

Hann segist enn vera að átta sig á atburðum helgarinnar. „Atburðurinn á sunnudaginn var mjög þungur. Það voru rosalega margir að stefna á að fara heim. Flestir voru að stefna á að gera það á einhverjum tímapunkti, þar með talinn ég. Svo gerist þetta á sunnudaginn og við erum enn að vinna við afleiðingar þess. Maður hefur ekki sest niður til að átta sig á þessu.“


Tengdar fréttir

„Virðist vera að fara upp með svipuðum hraða“

Kvika heldur áfram að safnast saman undir Svartsengi og jarðeðlisfræðingur segir að á meðan landris heldur áfram gæti gosið innan næsta mánaðar. Hætta innan Grindavíkur er áfram talin mjög mikil.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×