Lífið

Sögu­legur sigur FÁ í MORFÍs

Rafn Ágúst Ragnarsson skrifar
Sigurlið Fjölbrautaskólans við Ármúla ásamt þjálfurum sínum.
Sigurlið Fjölbrautaskólans við Ármúla ásamt þjálfurum sínum. aðsend

Lið Fjölbrautaskólans við Ármúla sigraði Verslunarskólann rétt í þessu í sextán liða úrslitum Mælsku- og rökræðukeppni framhaldsskóla á Íslandi, MORFÍs. Er þetta í fyrsta skipti sem FÁ sigrar Verslunarskólann í sögu keppninnar.

Umræðuefni keppninnar var áróður og mælti FÁ með en Verslunarskólinn á móti.

Heildarstig í keppninni voru 3044 talsins og refsistig engin. Stigamunur á liðunum var heil 187 stig og allir þrír dómarar voru sammála.

Ræðumaður kvöldsins var Hjördís Freyja Kjartansdóttir og hlaut hún 597 stig sem telst vera mikið sérstaklega þar sem hún var frummælandi liðsins síns sem fá yfirleitt færri stig en aðrir ræðumenn.

„Þetta voru bara geggjaðar ræður og góð svör. Við vorum með tvo hæstu ræðumenn kvöldsins. Frummælandinn okkar, Hjördís, var ræðumaður kvöldsins. Ég er í spennufalli. Við erum stoltar af liðinu okkar og við vissum að þær gætu þetta,“ segir Birgitta Rún Ólafsdóttir þjálfari ræðuliðs FÁ

Sigurlið Fjölbrautaskólans við Ármúla skipuðu þær Hjördís Freyja Kjartansdóttir, Sara Jóhanna Geirsdóttir Waage, Amarachi Rós Huldudóttir og Ágústa Rós Skúladóttir.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×