Fótbolti

Vand­ræða­legt undir­búnings­tíma­bil Messi og fé­laga heldur á­fram

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Lionel Messi og liðsfélagar hans í Inter Miami eru loksins búnir að skora en þeir hafa ekki unnið leik í langan tíma.
Lionel Messi og liðsfélagar hans í Inter Miami eru loksins búnir að skora en þeir hafa ekki unnið leik í langan tíma. Getty/Francois Nel

Lionel Messi og félagar í Inter Miami hafa enn ekki unnið leik á undirbúningstímabilinu en skoruðu þó loksins fyrstu mörkin sín í gær.

Miami liðið er komið til Sádí Arabíu til að spila tvo leiki og sá fyrri tapaðist 4-3 á móti Al Hilal í gær.

Al Hilal komst í 2-0 eftir aðeins þrettán mínútna leik. Miami minnkaði muninn en lenti fljótlega 3-1 undir. Aleksandar Mitrovic, Abdullah Al-Hamddan og Michael Delgado skoruðu mörkin.

Luis Suárez skoraði sitt fyrsta mark fyrir Inter Miami í fyrri hálfleiknum og í þeim síðari skoraði Messi úr víti og lagði svo upp mark fyrir David Ruiz.

Staðan var 3-3 þegar Messi fór af velli en Malcolm tryggði Al Hilal sigurinn undir lokin.

Miami liðið hefur nú spilað þrjá leiki á undirbúningstímabilinu án þess að vinna. Liðið skoraði ekki í fyrstu tveimur leikjunum, annar endaði með markalausu jafntefli en hinn tapaðist.

Næsti leikur er á móti Cristiano Ronaldo og félögum í Al Nassr á fimmtudaginn en óvíst er með þátttöku Portúgalans sem glímir við meiðsli.

Inter liðið hefur nú leikið ellefu leiki í röð án þess að vinna leik og þetta er farið að vera frekar vandræðalegt fyrir allar gömlu stórstjörnurnar sem liðið hefur safnað til sín frá því að Messi valdi að koma til félagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×